Fréttir og tilkynningar

5 júl. 2024 : Kjaraviðræður - Fundur með félagsmönnum - Sumarleyfi starfsfólks - Skert þjónusta í júlí!

TofaVegna sumarleyfa hjá félaginu þá erum við með lágmarksmönnun í júlí og fram til 5. ágúst.  

Bakvakt verður þessa daga sem felur í sér að fylgst verður með tölvupóstum sem berast á netfangið fin@fin.is og áríðandi tölvupóstum svarað. 

Öllum tölvupóstum sem berast okkur verður svarað dagana 6. til 12. ágúst.

Félagsfólk sem þarf að ná í okkur í júlí er vinsamlegast beðið um að hafa samband við okkur um netfangið fin@fin.is og í algjörum neyðartilvikum er hægt að senda SMS skilaboð í símanúmer formanns í síma 864-9616.

Bandalag háskólamanna (BHM) lokar síðustu tvær vikurnar í júlí, en verður með bakvakt.

Öllum kjaraviðræðum félagsins hefur verið frestað fram í ágúst vegna sumarleyfa beggja megin borðs.

Þann 19. ágúst mun félagið boða til fundar með félagsfólki þar sem farið verður yfir stöðu kjaraviðræðna.

Hafið það gott í sumar!

5 júl. 2024 : Könnun FÍN 2024

Við minnum félagsfólk FíN á að svara könnun FÍN 2024, hér er hlekkur á könnunina. Könnun FÍN 2024 varðar nafn og merki félagsins annars vegar og hins vegar ýmsar spurningar sem við þurfum svör við í ljósi þess að kjarasamningar eru í gangi.

Nýlega féll hæstaréttardómur um að ferðatími sé vinnutími og því óskum við eftir að fá svör frá okkar félagsfólki tengdum þeim dómi.

Við höfum einnig vitneskju um að einhverjir vinnuveitendur hafi fyrnt orlof en mögulega er ekki samræmi á milli vinnuveitanda hvernig það hefur verið framkvæmt. Því óskum við eftir upplýsingum frá félagsfólki hvort þau hafi orðið fyrir fyrningu orlofsdaga og hvernig framkvæmdin hafi farið fram.

Það er mikilvægt að við fáum svör frá félagsfólki okkar til að vinna okkur við ofangreinda þætti geti orðið bæði góð og markviss. 

Nú þegar hafa 451 svar borist og við viljum gjarnan fá fleiri svör frá okkar félagsfólki. 

 Könnuninni verður lokað þann 22. júlí nk.

Hvetjum félagsfólk til að svara könnuninni sem allra fyrst!

30 maí 2024 : Þjónusta fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis

Heildarsamtök launafólks á Íslandi og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hafa tekið höndum saman og unnið bæði leiðbeiningar fyrir starfsfólk stéttarfélaga vegna móttöku þolenda kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis sem og greinagóðar upplýsingar fyrir þolendur.

Þolendur leita til síns stéttarfélags til að fá stuðning og ráðgjöf er varðar réttindi, lög og reglur. Fulls trúnaðar er gætt. Fulltrúi stéttarfélagsins getur síðan beint þolanda áfram til VIRK í vegvísissamtal eða önnur viðeigandi úrræði eftir þörfum. Hægt er fá nánari upplýsingar hér.

17 maí 2024 : Hæstiréttur Íslands staðfestir að ferðartími telst til vinnutíma

Félag íslenskra náttúrufræðinga hefur ávallt haldið því fram að ferðatími, þ.e. sá tími sem fer í ferðir á vegum vinnuveitanda, teljist til vinnutíma og ef sá ferðartími fari umfram hefðbundinn dagvinnutíma viðkomandi þá gildi m.a. ákvæði um yfirvinnu og frítökurétt eins og með hvert annað vinnuframlag utan hefðbundins dagvinnutíma. 

Með dómi Hæstaréttar hefur túlkun FÍN verið staðfest og að hluta gengið lengra en félagið hefur haldið fram. 

Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar þá getur verið mikilvægt fyrir félagsfólk FÍN, sem sinnir eða hefur sinnt vinnuframlagi sínu utan starfsstöðvar, að skoða hvort sá ferðatími sem slíkt kallar á hafi verið talinn með vinnutíma eður ei. Getur því félagsfólk FÍN átt kröfu á sinn vinnuveitanda hafi slíkt ekki verið gert. 

Hvetjum við því félagsfólk okkar að skoða sín tilvik í ljósi dómsins og eftir atvikum gera kröfu á hendur vinnuveitanda og/eða leita til félagsins þessu tengdu.

FÍN vinnu nú að ítarlegri greiningu og upplýsingum er varðar ferðatíma og má vænta að slíkt verði birt félagsfólki von bráðar.