Breyting á starfi

Félagsmenn ættu í öllum tilfellum að hafa samband við félagið og leita ráða ef fyrirhugað er að gera breytingar á starfi, áður en frá slíku er gengið því nauðsynlegt er að skoða hvert tilfelli fyrir sig. 

Hér er gert grein fyrir helstu reglum er varða breytingar á starfi fyrir félagsmenn á opinberum vinnumarkaði (ríki og sveitarfélög).


Breytingar á störfum opinberra starfsmanna

Opinberum starfsmanni ber að hlíta breytingum á starfi og/eða verksviði frá því hann tók við starfi.  Umtalsverðar breytingar ber að tilkynna honum með sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða.  Starfsmaður getur kosið að segja starfi sínu upp ef hann unir ekki breytingunum og ber honum þá að skýra yfirmanni frá þeirri ákvörðun innan eins mánaðar.  Ef breytingar hafa í för með sér skert launakjör eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum jafn langan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er. 

Hafa ber í huga að starfsmaður er ráðinn í ákveðið starf og með ákveðið verksvið. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að starfið haldist óbreytt og er eðlilegt að það þróist á starfstímanum. Afstaða stéttarfélagsins er sú að þessu ákvæði beri að beita hóflega og túlka þröngt og velja þær breytingar sem eru minnst íþyngjandi fyrir starfmanninn.  Þá hefur Umboðsmaður Alþingis litið svo á, að breytingarnar skv. 33. gr. eldri laga, verði eðli máls samkvæmt að vera starfsmanni samboðin, meðal annars með hliðsjón af menntun, sbr. skýrslu hans frá 1991/97.

Feli breytingar á starfi  í sér breytingar á launakjörum ber að virða andmælarétt starfsmanns.  Ef breytingar á starfi fela ekki í sér breytingar á launum, er ekki skylt að veita starfsmanni andmælarétt.  Sama gildir ef um skerta yfirvinnu er að ræða.

Ítarefni

Ákvæði um breytingar á störfum