Hæstiréttur Íslands staðfestir að ferðartími telst til vinnutíma
Félag íslenskra náttúrufræðinga hefur ávallt haldið því fram að ferðatími, þ.e. sá tími sem fer í ferðir á vegum vinnuveitanda, teljist til vinnutíma og ef sá ferðartími fari umfram hefðbundinn dagvinnutíma viðkomandi þá gildi m.a. ákvæði um yfirvinnu og frítökurétt eins og með hvert annað vinnuframlag utan hefðbundins dagvinnutíma.
Með dómi Hæstaréttar hefur túlkun FÍN verið staðfest og að hluta gengið lengra en félagið hefur haldið fram.
Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar þá getur verið mikilvægt fyrir félagsfólk FÍN, sem sinnir eða hefur sinnt vinnuframlagi sínu utan starfsstöðvar, að skoða hvort sá ferðatími sem slíkt kallar á hafi verið talinn með vinnutíma eður ei. Getur því félagsfólk FÍN átt kröfu á sinn vinnuveitanda hafi slíkt ekki verið gert.
Hvetjum við því félagsfólk okkar að skoða sín tilvik í ljósi dómsins og eftir atvikum gera kröfu á hendur vinnuveitanda og/eða leita til félagsins þessu tengdu.
FÍN vinnu nú að ítarlegri greiningu og upplýsingum er varðar ferðatíma og má vænta að slíkt verði birt félagsfólki von bráðar.
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. maí 2024 var deilt um hvort ferðatími í tveimur ferðum á vegum Samgöngustofu erlendis (Ísrael og Sádi-Arabíu) teldist til vinnutíma, þ.e. þess hluta sem umfram var hefðbundinn dagvinnutíma. Bæði í héraði sem og hjá Landsrétti var fallist á kröfur stefnanda og talið að ferðatími teljist til vinnutíma. Fyrir héraði lá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Ekki var leyst úr því hvort umræddur ferðatími teldist til yfirvinnu í skilningi kjarasamnings.
Hæstiréttur hafnaði kröfu ríkisins að ekki sé unnt að byggja á hinu ráðgefandi áliti EFTS-dómstólsins heldur taldi að túlka bæri hugtakið „vinnutími“ í samræmi við samhljóma ákvæði í vinnutímatilskipun Evrópusambandsins eins og það hefur verið túlkað af hálfu EFTA dómstólsins. Lagði Hæstiréttur því til grundvallar að ferðatími til vinnu utan venjulegs vinnutíma til annars áfangastaðar en fastrar starfsstöðvar teljist vinnutími og ekki skipti máli hvort ferðast sé innan eða utan EES-svæðisins.
Taldi Hæstiréttur að sá ferðatími starfsmannsins í umræddum vinnuferðum á vegum Samgöngustofu teljist til vinnutíma sem og að ekki beri að draga frá áætlaðan tíma sem tekur viðkomandi að fara til og frá starfsstöð.