Atvinnuleitendur
Styrkir fyrir atvinnulausa félagsmenn
-
Mynd: Edda Sigurdís Oddsdóttir
Félagi íslenskra náttúrufræðinga er umhugað að styðja við bakið á félagsmönnum sem eru atvinnulausir og kjósa að greiða félagsgjald af atvinnuleysisbótum til félagsins. Félagsmenn tryggja þar með aðild sína að sjúkrasjóðum BHM, Starfsmenntunarsjóði BHM og Orlofssjóði BHM.
Atvinnulausir félagsmenn geta fengið styrk, allt að 300.000 kr. á ári, t.d. til að sækja námskeið að eigin vali.
Félagsmönnum sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur býðst einnig handleiðsla hjá sálfræðingum Líf og sál sálfræðistofa ehf.
Þjónusta félagsins við atvinnuleitendur
- Öllum félagsmönnum býðst að koma í viðtal og ræða stöðuna með það að markmiði að greina hvernig félagið getur sem best stutt við bakið á þeim. Hægt er að bóka viðtalstíma hjá félaginu í síma 595-5175 eða um netfangið fin@fin.is. Félagið sendir atvinnulausum félagsmönnum tölvupóst reglulega ef þeir hafa verið atvinnulausir í 3 mánuði eða lengur.
Styrkir til atvinnulausra
Atvinnulausir félagsmenn geta fengið styrk allt að 300.000 kr. á ári, t.d. til að sækja námskeið að eigin vali hafi þeir verið atvinnulausir samfellt í þrjá mánuði eða lengur. Styrkurinn er eingöngu greiddur til félagsmanna sem greiða iðgjöld til félagsins af atvinnuleysisbótum og hafa greitt samfellt sex mánaða iðgjöld til félagsins fyrir atvinnumissi. Úthlutað er að jafnaði tvisvar á ári, að vori og hausti. FÍN leggur áherslu á að um einstaklingsbundin úrræði er að ræða þar sem þarfir félagsmanna eru mismunandi. Styrkurinn er greiddur gegn framvísun kvittana.
Handleiðsla hjá sálfræðingum hjá Líf og sál fyrir atvinnuleitendur
Félag íslenskra náttúrufræðinga og Líf og sál sálfræðistofa ehf. (L&S) hafa gert samning um þjónustu fyrir félagsmenn FÍN sem hafa orðið atvinnulausir fyrir 12 mánuðum eða meira. Um er að ræða 6 viðtöl hjá sálfræðingi hjá L&S. Tilgangur viðtalanna er að byggja upp einstakling í erfiðum aðstæðum, sem vill auka sjálfstraust og eldmóð sinn. Einnig er markmiðið að veita honum aðstoð við að takast á við neikvæðar tilfinningar og mótbyr sem fylgir því að vera atvinnulaus. Rauði þráður viðtalanna er að setja markmið sem miða að því að finna starf sem hentar viðkomandi og hans menntun og að aðstoða við að útbúa áætlun um það. Viðtölin eru aðlöguð að þörfum hvers einstaklings en unnið er með eftirfarandi þætti:
Daglegt líf:
- Hvernig er andleg líðan og hver eru viðhorf til aðstæðnanna?
- Hvernig á að takast á við neikvæðar tilfinningar og mótbyr?
- Hvernig á að gefa daglega lífinu jákvætt innihald?
Greining á hæfni, þekkingu og eiginleikum einstaklingsins:
- Farið yfir ferilskrána og farið yfir styrkleika og veikleika einstaklingsins
- Greindir eiginleikar til að vinna með og hvaða eiginleika þarf að efla í fari einstaklingsins
Hver eru markmið einstaklingsins m.t.t. atvinnu
- Hvert skal stefna?
- Hvernig störf ætlar viðkomandi að einbeita sér að sækja um?
- Hvað þarf að gera til að ná þessum markmiðum?
Hvernig á einstaklingur að standa að því að sækja um vinnu
- Farið yfir umsóknarferilinn, veitt ráð varðandi ferilskrá og kynningarbréf og önnur gögn
- Hvað þarf að gera til að auka hæfni sína í atvinnuviðtali, undirbúningur, góð ráð veitt t.d. varðandi samtalstækni og framkomu.
Að lokum er unnið með þá þætti sem þarf að vinna úr eða styrkja
Félagsmaður hjá Félagi íslenskra náttúrufræðinga sem vill nýta sér þessa þjónustu þarf að fá gjafabréf frá félaginu sem hann framvísar hjá Lífi og sál.
Félagsmenn sem hafa áhuga á að þiggja þessa þjónustu eru beðnir um að hafa samband í síma 595-5175 eða um netfangið fin@bhm.is.
Atvinnuauglýsingar
FÍN birtir atvinnuauglýsingar frá félagsmönnum og frá atvinnurekendum, sé óskað eftir slíku.
Hagnýtar upplýsingar fyrir atvinnuleitendur
Markaðssetning á eigin færni, þekkingu og reynslu virðist reynast mörgum háskólamanninum erfið. Eftirfarandi spurningar geta reynst gagnlegar í slíkri vinnu:
- Hvað vil ég?
- Hvað hef ég fram að færa?
- Hvert er ég að stefna?
- Hverjir eru veikleikar og styrkleikar mínir?
Ýmsar leiðir eru færar þegar fólk er að koma sér á framfæri á vinnumarkaði. Að svara atvinnuauglýsingum er ein af mörgum leiðum í þessu sambandi. Hafa ber í huga að einungis lítill hlutur af lausum störfum er auglýstur í fjölmiðlum. Frumkvæði og áræðni þeirra sem eru í atvinnuleit geta því skipt miklu máli. Algengt er að fólk leiti beint til fyrirtækja eða stofnana sem eru áhugaverð að mati þeirra sem eru að leita sér að starfi. Mörgum hefur reynst vel að nýta sér sitt eigið tengslanet, þ.e. láta sem flesta vita að þeir eru að leita að áhugaverðu starfi og hafa allar klær úti í atvinnuleitinni. Nokkrar ráðningarþjónustur eru starfræktar á Íslandi og þar er hægt að fá upplýsingar um störf í boði hjá þeim, skrá sig í gagnabanka yfir umsækjendur og óska eftir viðtali við ráðgjafa. Listinn hér að neðan er ekki endilega tæmandi og er uppfærður reglulega:
- Alfreð
- Hagvangur
- Intellecta
- Job.is
- Ráðum atvinnustofa
- Starfatorg (einungis störf hjá ríkinu)
- vinnvinn
Ferilskrá
Fyrsta skrefið í atvinnuleitinni felst gjarnan í því að ganga frá ferilskrá og er mikilvægt tæki í markaðssetningu þeirra sem eru í atvinnuleit. Það er tiltölulega einfalt að búa til ferilskrá en ýmislegt sem ber að varast og illa gerð ferilskrá getur komið í veg fyrir að viðkomandi komist lengra í ráðningarferlinu. Ýmis tilbúin form að ferilskrá eru til á netinu og í Word forritinu, sem geta gagnast vel. Hafa ber í huga að viðkomandi er að reyna fanga athygli atvinnurekandans og því er mikilvægt að gera tilbúin form að ferilskrá að sínu og aðlaga hana að því starfi sem er verið að sækja um. Ferilskráin er stutt skýrsla um fyrri störf, menntun og hæfni. Máli skiptir að tapa sér ekki í smáatriðum heldur sigta það út sem skiptir máli varðandi starfið sem um ræðir.
Innihald ferilskráar:
- Persónuupplýsingar: Nafn, heimilisfang, símanúmer, kennitala, netfang.
- Menntun: Upplýsingar um háskóla og gráður, í réttri tímaröð, þ.e. nýjasta gráðan fyrst.
- Starf: Upplýsingar um fyrri störf og núverandi starf, þ.m.t. stutt lýsing á starfi, helstu afrekum og verkefnum.
- Tölvukunnátta.
- Tungumálakunnátta.
- Félagsstörf.
- Umsagnaraðilar: Nöfn, starfsheiti, vinnustaður og símanúmer.
Fylgibréf
Í fylgibréfi með umsókn þarf m.a. að koma fram af hverju viðkomandi finnst starfið áhugavert og hvað hann/hún hefur fram að færa. Á vef Vinnumálastofnunar má finna leiðbeiningar um uppbyggingu fylgibréfs og einnig sniðmát að ferilskrá.
Ráðningarsamningar
FÍN veitir félagsmönnum ráðgjöf varðandi ráðningarsamninga, kjör og réttindi o.fl. sem tengist ráðningum.