Desember– og orlofsuppbót

Persónuuppbætur í kjarasamningum eru tvennskonar. Annars vegar desemberuppbót og hins vegar orlofsuppbót.

Hér má finna upplýsingar um upphæðir persónuuppbóta samkvæmt kjarasamningum félagsins. 

Orlofsuppbót

 Samningur  2024 2023 2022 2021 2020 2019 2018 2017 
 Ríki  Ósamið 56.000 53.000 52.000 51.000 50.000 48.000  46.500
 Sveitarfélög  Ósamið55.700 53.000 51.700 50.450  48.000  49.000
 Reykjavíkurborg  Ósamið 56.000 53.000 52.000 51.000 50.000 48.000  46.500
 Aðalkjarasamningur SA  58.000 56.000 53.000 52.000 51.000 50.000 48.000  46.500

Hverjir eiga rétt á orlofsuppbót?

Orlofsuppbót skal almennt greiða 1. júní ár hvert en hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg er miðað við 1. maí.

Ríki og Reykjavíkurborg

Starfsmenn sem eru í fullu starfi 30. apríl fá greidda orlofsuppbót sem miðast við full starf allt orlofsárið (1. maí til 30. apríl). Sé viðkomandi í hlutastarfi eða í starfi hluta árs er greidda orlofsuppbótin í samræmi við starfshlutfall eða starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á orlofsuppbót reiknast ekki orlofsfé.


Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3ja mánaða (13 vikna) samfellt starfs á orlofsárinu skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall.  Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu vinnuveitanda lýkur eða vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum.

Samband íslenskra sveitarfélaga

Starfsmenn sem er í starfi til 30. apríl fá greidda orlofsuppbót 1. maí ár hvert er miðast við fullt starf næstliðið orlofsár (1. maí til 30. apríl). Sé viðkomandi í hlutastarfi eða í starfi hluta árs er greidda orlofsuppbótin í samræmi við starfshlutfall eða starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á orlofsuppbót reiknast ekki orlofsfé.

Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3ja mánaða (13 vikna) samfellt starfs á orlofsárinu skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall. Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu vinnuveitanda lýkur eða vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum.

Óskert orlofsuppbót tímavinnufólks miðast við 1.504 unnar dagvinnustundir á næstliðnu orlofstímabili.

Samtök atvinnulífsins

Starfsmenn, aðrir en stjórnendur, fá greidda desember- og orlofsuppbót í samræmi við aðalkjarasamning SA á almennum vinnumarkaði. Heimilt er í ráðningarsamningi að fella uppbætur inn í mánaðarlaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt.

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. Sama gildir er kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Desemberuppbót

 Samningur  2024 2023 2022 2021 20202019  2018  2017
 Ríki Ósamið 103.000 98.000 96.000 94.000 92.000 89.000 86.000
 Sveitarfélög Ósamið 131.000  124.750121.700 118.750 115.850113.000 103.000
 Reykjavíkurborg Ósamið 115.000 109.100 106.100  103.100100.100 97.100 94.300
 Aðalkjarasamningur SA 106.000 103.000 98.000 96.000 94.000 92.000 89.000 86.000






Hverjir eiga rétt á desemberuppbót?

Desemberuppbót skal greiða 1. desember ár hvert en útfærsluákvæði eru mismunandi eftir kjarasamningum félagsins:

Ríki og Reykjavíkurborg

Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Persónuuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum samkvæmt öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á uppbótina reiknast ekki orlofsfé.

Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda uppbót í desember miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs (fæðingarorlof reiknast til starfstíma hjá opinberum starfsmönnum).

Samband íslenskra sveitarfélaga

Starfsmaður í fullu starfi fær greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert. Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár.

Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár. Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda persónuuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi persónuuppbót.

Persónuuppbót greiðist starfsmönnum sem fóru á eftirlaun á árinu enda hafi þeir skilað starfi er svari til a.m.k. hálfs starfsárs það ár. Sama regla gildir um þá, sem sökum heilsubrests minnka við sig starf, enda liggi fyrir um það vottorð læknis. Heildargreiðsla til eftirlaunaþega verði aldrei hærri en full persónuuppbót. Framangreind persónuuppbót er með inniföldu orlofi og greiðist sjálfstætt og án tengsla við laun.

Óskert persónuuppbót tímavinnufólks miðast við 1.504 unnar dagvinnustundir á viðmiðunartímabilinu.

Samtök atvinnulífsins

Starfsmenn, aðrir en stjórnendur, fá greidda desember- og orlofsuppbót í samræmi við aðalkjarasamning SA á almennum vinnumarkaði.  Heimilt er í ráðningarsamningi að fella uppbætur inn í mánaðarlaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt.

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. Sama gildir er kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.