Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Á almennum vinnumarkaði telst fæðingarorlof til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði skulu fjarvistir starfsmanna vegna fæðingarorlofs, sem starfað hafa 1 ár eða lengur hjá atvinnurekanda, teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar.
Fæðingar- og foreldraorlof
Hér má finna grunnupplýsingar um réttindi foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs en ítarlegri upplýsingar er að finna á vef Fæðingarorlofssjóðs.
Réttindi til fæðingarorlofs skapast við:
- Fæðingu barns
- Ættleiðingu barns eða töku barns í varanlegt fóstur
- Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
- Andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu
Réttindi hjá FÍN í fæðingarorlofi
Á umsóknareyðublaði um fæðingarorlofsgreiðslur er hægt að óska eftir því að greitt sé til Félags íslenskra náttúrufræðinga og þar með tryggt að áunnin réttindi viðkomandi hjá stéttarfélagi haldist óbreytt meðan á fæðingarorlofi stendur, s.s. til úthlutunar úr sjúkrasjóðum, orlofssjóði, starfsmenntunarsjóði og vísindasjóði ef við á. Þá á viðkomandi áfram rétt á annarri þjónustu FÍN, s.s. eins og aðstoðar vegna starfstengds ágreinings.
Fæðingarstyrkur frá sjóðum BHM
Fæðingarstyrkir frá sjúkra- og styrktarsjóðum BHM eru til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Sjúkrasjóður BHM er fyrir félagsmenn á almennum vinnumarkaði og Styrktarsjóður BHM er fyrir félagsmenn hjá ríki eða sveitarfélögum. Upphæð styrksins árið 2025 er 300.000 kr. úr Sjúkrasjóði og 200.000 kr. úr Styrktarsjóði.
Mæðravernd og meðgöngustyrkur
Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.
Sorgarleyfi og sorgarstyrkur
Hjá Fæðingarorlofssjóði er hægt að sækja um styrki fyrir foreldra sem verða fyrir barnsmissi. Greiðslur í sorgarleyfi eru fyrir foreldra sem taka sér leyfi frá launuðum störfum. Sorgarstyrkur er fyrir þau sem eru í fullu námi, utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Hjá sjóðum BHM, sjúkra- og styrktarsjóði, er einnig hægt að sækja um dánarbætur vegna fráfalls barns sjóðfélaga , vegna andvana fæðingu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Sjá nánar í úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs og Styrktarsjóðs.
Sumarorlof eftir fæðingarorlof og desember- og orlofsuppbætur
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Opinberir starfsmenn ávinna sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi.
Starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnframt rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar.
Uppsögn í fæðingarorlofi
Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum sem tilkynnt hefur um fæðingarorlof eða er í slíku orlofi nema til þess liggi skriflegar rökstuddar ástæður sem mega með engum hætti tengjast töku fæðingarorlofs eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi.
Foreldraorlof
Foreldrar geta átt rétt á fæðingarorlofi þegar barn þeirra fæðist, er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Hvort foreldri á rétt á 6 mánuðum í fæðingarorlof og heildarréttur tveggja foreldra er því 12 mánuðir. Skilyrði er að hafa unnið á Íslandi samfellt síðustu 6 mánuðina fyrir fæðingardag barns, í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga.
Nánar um rétt til fæðingarorlofs á vefsíðu Vinnumálastofnunar.
- Vinnumálastofnun hefur umsjón með rekstri Fæðingarorlofssjóðs
- Sjóðurinn annast greiðslur skv. lögum nr. 144/2000 um fæðingar- og foreldraorlof
- Reiknivél fyrir fæðingarorlof
- Samkomulag um mæðravernd
Mínar síður
Umsóknir í sjóði BHM sem tengjast ofangreindu fara í gegnum Mínar síður hjá BHM