Lög FÍN

  • 1. gr.  Almennt
Félagið heitir Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) og á ensku The Union of Natural Scientists in Iceland. Félagssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.  

2. gr.  Hlutverk
Félagið er stéttarfélag. Hlutverk þess er:

  1. Að vinna að bættum kjörum félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í kjarasamningsbundnum réttindamálum
  2. Að gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína, hvort heldur er á almennum markaði eða hjá hinu opinbera.
  3. Að stuðla að samvinnu, samheldni og góðri fagþekkingu félagsmanna. 

3. gr.  Aðildarskilyrði
A. Full aðild 

Þeir sem hafa lokið a.m.k. Bakkalár-prófi eða sambærilegri menntun og starfa á þeim sviðum sem félagið hefur samningsumboð fyrir geta fengið fulla aðild að félaginu. Stjórn er heimilt að hafna aðild að félaginu telji hún að félagið geti ekki samið um viðkomandi starf í kjarasamningi.

Full aðild felst í því að viðkomandi hafi hlotið aðild að félaginu, ásamt því að hafa greitt félagsgjald til félagssins sl. 6 mánuði.

B. Nemaaðild 

Nemaaðild er tímabundin aðild að félaginu. Nemaaðild varir að hámarki í 5 ár. Nemaaðild veitir full félagsréttindi önnur en kjörgengi.

C. Undanþáguheimildir 

Stjórn er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um a.m.k. bakkalárpróf, sbr. A lið, og veita viðkomandi aðila fulla aðild að félaginu krefjist starf viðkomandi prófs á háskólastigi eða ígildi þess. Stjórn er heimilt að veita undanþágu frá Bachelor-prófi sbr. A lið til þeirra sem hafa náð sér í formlega prófgráðu á háskólastigi geti félagið haft samningsumboð vegna viðkomandi starfs. Stjórn skal birta á vefsíðu félagsins veittar undanþágur [innsk. sjá veittar undanþágur hér fyrir neðan].

Kjörgengi og kosningarréttur eru háð því að félagsmenn hafa fulla aðild og hafi greitt félagsgjöld til félagsins síðustu 6 mánuði.

4. gr.  Umsókn
Beiðni um aðild að félaginu skal vera skrifleg/rafræn og send félaginu ásamt afriti af prófskírteini. Framkvæmdastjóri veitir bráðabirgðaaðild að félaginu með fullum félagsréttindum. Vafaatriði eru borin undir framkvæmdastjórn. Allar umsóknir skulu lagðar fyrir næsta stjórnarfund til endanlegrar afgreiðslu. Félagsmenn skulu senda félaginu upplýsingar um breytingar sem hafa orðið á veittum upplýsingum á umsóknareyðublaði þegar þær breytast.

5. gr.  Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í mars ár hvert. Aðalfundur skal auglýstur á vefsvæði félagsins með a.m.k. viku fyrirvara. Með slíkri auglýsingu telst aðalfundur vera löglega boðaður. Samhliða slíkri auglýsingu skal félagið senda fundarboð á skráð netföng allra fullgildra félagsmanna. Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram rafrænt í fjarfundi að hluta eða öllu leyti og skal geta þess í fundarboði hvort um staðfund eða fjarfund sé að ræða. Stjórn getur farið fram á að félagsmenn forskrái mætingu á aðalfund. Aðeins kjörgengnir félagsmenn geta gefið kost á sér til þeirra starfa sem kosið er í á aðalfundi og skuli þeir tilkynna stjórn FÍN skriflega/rafrænt um framboð sitt fyrir 1. febrúar.

Meginreglan er sú að allar kosningar í embætti á vegum félagsins skulu vera skriflegar/rafrænar og leynilegar, ef ekki er sjálfkjörið.

Stjórn er heimilt að hefja rafræna atkvæðagreiðslu vegna kosninga í embætti á vegum félagsins og skal stjórn upplýsa félagsmenn um fyrirkomlag kosninga fyrir lok framboðsfrests. Stjórn skal útbúa og samþykkja kjörskrá um alla gilda kosningabæra félagsmenn samkvæmt félagatali 1. febrúar ár hvert.

Stjórn skal tryggja að félagsmenn geti kynnt sér þá frambjóðendur sem eru í kjöri áður en atkvæðagreiðsla hefst. Stjórn skal tryggja að upplýsingar sem eru veittar til frambjóðenda séu þær sömu. Stjórnarmenn og starfsmenn skulu gæta hlutleysis í störfum sínum gagnvart frambjóðendum. Niðurstöður kosninganna skulu tilkynntar á aðalfundi félagsins, í samræmi við dagskrá aðalfundar.

Dagskrá skal tilgreind í fundarboði. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Sérstök verkefni aðalfundar eru:

1. Formaður flytur skýrslu stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar félagsins og sjóða þess.
3. Tillögur um lagabreytingar.
4. Ákvörðun um félagsgjöld.
5. Stjórnarkjör.
6. Kosning í stjórn kjaradeilusjóðs.
7. Kosning siðanefndar.
8. Önnur mál.

Aðra félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins sér ástæðu til og skulu þeir boðaðir með tryggilegum hætti. Þá er stjórn félagsins skylt að boða til félagsfundar ef a.m.k. 30 fullgildir félagsmenn krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Skal boðað til hans með sama hætti og gildir um aðalfundi.

6. gr.  Stjórn og framkvæmdastjórn
Stjórn félagsins skal skipuð 20 mönnum. Þeir eru formaður, varaformaður og 17 meðstjórnendur, sem kosnir skulu á aðalfundi til tveggja ára í senn. Þá velja trúnaðarmenn einn fulltrúa úr sínum hópi í stjórn til tveggja ára. Á hverju ári skal kjósa hluta stjórnar þannig, að annað árið er kosinn formaður félagsins og níu meðstjórnendur, en varaformaður og átta meðstjórnendur hitt árið. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn. Engan má þó kjósa sem formann félagsins oftar en fimm sinnum. Hætti stjórnarmaður á fyrra ári kjörtímabils eða sé hann kosinn til annarra stjórnarstarfa á aðalfundi áður en kjörtímabil hans rennur út, skal annar kjörinn í hans stað til eins árs. Séu framboð færri en embætti skal stjórn félagsins tilnefna fulltrúa.

Stjórn félagsins kýs ritara, gjaldkera og meðstjórnanda í framkvæmdastjórn úr hópi stjórnarmanna. Framkvæmdastjórn starfar í umboði stjórnar félagsins og sér um útfærslu á samþykktum hennar. Í framkvæmdastjórn sitja formaður félagsins, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Framkvæmdastjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri, ákveður verkaskiptingu á skrifstofu, setur verklagsreglur og ákvarðar launakjör.

7. gr.  Samninganefndir, samstarfsnefndir og trúnaðarmenn
Stjórn félagsins er jafnframt samninganefnd þess og fer með gerð kjarasamninga fyrir þess hönd. Hún kallar til samningastarfa trúnaðarmenn, starfsmenn og sérfræðinga eftir þörfum. Stjórn félagsins skal beita sér fyrir að trúnaðarmenn séu kjörnir á vinnustöðum félagsmanna og boða þá á fund einu sinni á ári og oftar ef þörf krefur. 

Þegar fulltrúi trúnaðarmanna í stjórn hefur setið í tvö ár skal fundur trúnaðarmanna haldinn innan mánaðar frá aðalfundi til að velja fulltrúa þeirra í stjórn.  Hætti hann sem trúnaðarmaður skal nýr fulltrúi valinn á fundi trúnaðarmanna til loka tímabilsins. 

Samstarfsnefndir starfa samkvæmt ákvæðum kjarasamninga félagsins og taka á ágreiningsefnum við túlkun kjarasamninga svo og endurskoðun stofnanasamninga. Formaður félagsins skipar fulltrúa þess í nefndirnar.

8. gr.  Reikningsár
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Framkvæmdastjórn gengur frá samningi við löggilda endurskoðendur sem yfirfara reikninga félagsins.

9. gr.  Félagsgjöld
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi.

10. gr.  Kjaradeilusjóður
Félagið starfrækir kjaradeilusjóð. Reglur um starfsemi sjóðsins skulu settar á aðalfundi og  honum jafnframt markaður tekjustofn. Eignum kjaradeilusjóðs og tekjum skal haldið algerlega aðgreindum frá öðrum fjármunum félagsins og er óheimilt að verja þeim til annarra þarfa en þeirra sem falla undir reglur um starfsemi sjóðsins.

11. gr.  Siðanefnd
Siðanefnd starfar á vegum félagsins. Aðalfundur setur henni starfsreglur.

12. gr.  Bandalag háskólamanna
Félagið er aðili að Bandalagi háskólamanna (BHM).

Stjórn félagsins skipar fulltrúa á aðalfund Bandalags háskólamanna – BHM. Formaður situr að jafnaði í formannaráði BHM í samræmi við gildandi lög þess. Stjórn skipar varamann formanns í formannaráði.

13. gr.  Kröfugerð
Meginkröfugerð vegna kjarasamninga skal rædd á vinnustaðafundum.

14. gr.  Kjarasamningar
Kjarasamninga skal undirrita með fyrirvara um samþykki viðkomandi félagsmanna í allsherjaratkvæðagreiðslu. Stjórn félagsins ákveður hvort leita eigi samþykkis viðkomandi félagsmanna með atkvæðagreiðslu þegar um réttindasamninga og tengisamninga er að ræða.

15. gr.  Afsögn stjórnar
Komi til þess að stjórn félagsins segi af sér störfum skal hún boða til félagsfundar. Skal til hans boðað eins og aðalfundar. Á honum fari að lágmarki fram öll þau störf aðalfundar sem nauðsynleg eru við stjórnarskipti, þ.e. dagskrárliðir 1, 2 og 5, sbr. 5. grein.

16. gr.  Úrsögn
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og taka gildi um önnur mánaðamót eftir að hún berst félaginu. Úrsögn skal þó ekki taka gildi ef vinnustöðvun hefur verið boðuð hjá vinnuveitanda viðkomandi félagsmanns eða á meðan á vinnustöðvun stendur.

17. gr.  Lagabreytingar
Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á lögmætum aðalfundi með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. febrúar. Tillögur um lagabreytingar skulu tilkynntar í fundarboði.

18. gr.  Gildistími
Lög þessi öðlast gildi 30. mars 2023.  Jafnframt falla eldri lög félagsins úr gildi. 

Bráðabirgðaákvæði:
Þeir sem áður hafa fengið aðild að félaginu í gegnum aukaaðild, nú nemaaðild, halda sinni aðild á meðan rof kemur ekki í greiðslu félagsgjalds.

Veittar undanþágur stjórnar FÍN

  • Aðili sem sækir um aðild að félaginu og er með gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis sem heilbrigðisgagnafræðingur og starfar sem slíkur fær fulla aðild að félaginu (28. apríl, 2023).