Aðgangur að upplýsingum
Samkvæmt lögum eiga launþegar rétt á ákveðnum upplýsingum um föst launakjör starfsmanna og æðstu stjórnenda. Einnig er atvinnurekanda óheimilt að láta starfsmenn sína undirgangast ákvæði um launaleynd.
Réttur almennings til upplýsinga um launakjör opinberra starfsmanna
Samkvæmt upplýsingalögum taka þau til allrar starfsemi stjórnvalda og fellur því m.a. starfsemi ríkis og sveitarfélaga auk lögaðila sem eru að minnst 51% í eigu hins opinbera eða einkaaðila sem falið er opinbert verkefni, þ.e. opinber vinnuveitandi. Í lögunum er tilgreint að veita skuli almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum, þ.e. réttur allra sem þess óska. Meðal þeirra gagna sem lögin tilgreina að stjórnvaldi sé skylt að veita upplýsingar um eru upplýsingar um föst launakjör annarra starfsmanna og æðstu stjórnenda. Undir hugtakið föst launakjör falla allar fastar greiðslur frá vinnuveitanda, svo sem föst ómæld yfirvinna og bifreiðastyrkur.
Opinber vinnuveitandi ber að veita aðgang að eftirfarandi upplýsingum til almennings:
- Nöfn starfsmanna
- Föst launakjör og önnur föst kjör eða þóknanir
- Starfssvið viðkomandi
Úrskurðanefnd um upplýsingamál
- Mál: 560/2014. Úrskurður frá 17. nóvember 2014
Félag sjúkraþjálfara kærði afgreiðslu landlæknis á beiðni þess um upplýsingar um nöfn þeirra sem hefðu starfað fyrir embættið á tilteknu tímabili. Nefndin taldi kæranda hafa átt rétt á að fá upplýsingar um föst launakjör starfsmanna og æðstu stjórnenda. Því hafi landlækni verið skylt að veita honum upplýsingar um nöfn og starfssvið þeirra starfsmanna sem störfuðu hjá embættinu á umræddu árabili, og um föst launakjör, en ekki um menntun þeirra eða stéttarfélagsaðild. Var lagt fyrir landlækni að veita kæranda aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra starfsmanna sem störfuðu hjá embættinu á árunum 2011, 2012 og 2013 - um föst launakjör þeirra og starfssvið.
Umboðsmaður Alþingis
- Mál nr. 5103/2007 Umboðsmaður Alþingis tók mál þetta upp að eigin frumkvæði vegna fréttaumfjöllunar um laun og starfstengdar greiðslur útvarpsstjóra. Þrátt fyrir að umboðsmaður hafi lokið umfjöllun sinni um málið eftir að upplýsingar voru birtar þá kemur fram í álitinu umfjöllun um rétt almennings um aðgangs að fyrirliggjandi upplýsingum um umsamin föst starfskjör opinberra starfsmanna enda sé um að ræða upplýsingar um ráðstöfun á opinberum fjármunum. Taldi umboðsmaður að undir þetta falli m.a. einstaklingsbundnir ráðningarsamningar og aðrar ákvarðanir eða samningar sem liggja til grundvallar launaákvörðunum. Í álitinu kemur fram að veita skuli aðgang annars vegar að föstum launakjörum og hins vegar hvort til staðar séu önnur föst umsamin starfskjör, s.s. bifreiðhlunnindi, og þá hver þau kjör eru og jafnframt um aðra fasta aukavinnu eða þóknanir. Skýrt kemur fram að stjórnvöldum ber ekki skylda til að veita upplýsingar um greidd heildarlaun starfsmanna vegna breytilegra þátta , s.s. vegna yfirvinnu eða vegna launafrádráttar hverskonar.
Afnám launaleyndar
Launaleynd hefur verið talin vera ein af ástæðum þess að launamunur kynjanna er viðvarandi. Til þess að vinna gegn þessu er í jafnréttislögunum nú kveðið á um það í 19. gr. að launafólki sé tryggður réttur til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Þetta þýðir að atvinnurekendur geta ekki krafist þess af starfsfólki sínu að það semji sig undir ákvæði um launaleynd. Slík samningsákvæði eru óheimil og hafa því ekki gildi. Þetta ákvæði er mikil bót frá því sem var, en þó alls ekki nægjanlegt til þess að afnema launaleynd í raun. Til þess þyrfti að kveða með einhverjum hætti á um skyldu atvinnurekanda til að hafa launaupplýsingar „uppi á borðinu“ og hafa gagnsæi varðandi laun og launakjör. Vonandi verður það gert við næstu endurskoðun jafnréttislaga. Sjá nánar vef Jafnréttisstofu.
- Lög nr. 10/2008, 19. gr. Launajafnrétti.
Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.
Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.