Þjónusta FÍN

  • Álft: Brynja Hrafnkelsdóttir
    Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Félagið er stéttarfélag fyrir þá sem hafa lokið bakkalárprófi eða ígildi þess frá viðurkenndum háskóla.

Félaginu er umhugað um að veita sem besta þjónustu og býður m.a. upp á hagsmunagæslu á sviði kjara- og réttindamála, túlkun á samningum og ráðgjöf í ágreiningsmálum.  

Síma-og viðverutími á skrifstofu FÍN er sem hér segir:
Mánudaga og miðvikudaga frá kl. 13:00 til 14:00 Þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 11:00 til 12:00 Skrifstofan er lokuð á föstudögum. 

Utan þessa tíma er fylgst með tölvupóstum á netfangi félagsins fin@fin.is.

Óskir þú eftir viðtali við okkur utan þessa síma- og viðverutíma þá vinsamlegast sendu okkur tölvupóst á netfangið fin@fin.is og við funnum hentugan fundartíma með þér.

Þjónusta við félagsmenn

Þjónustustig félagsins er háð því hvort um sé að ræða virka eða óvirka félagsmenn. Virkir félagsmenn hafa greitt félagsgjöld til félagsins síðustu 6 mánuði. Óvirkir félagsmenn hafa ekki greitt til félagsins síðustu 6 mánuði og ekki sagt sig úr félaginu.

Félagið veitir virkum félagsmönnum þjónustu m.a:

  • Ráðgjöf vegna kjara- og réttindamála.
  • Ráðgjöf vegna ráðningarsamninga.
  • Upplýsingar varðandi launakjör og launaþróun.
  • Fræðslu frá formanni út á stofnunum/fyrirtækjum þar sem félagsmenn starfa.
  • Lögfræðiþjónustu á sviði vinnuréttar.
  • Aðstoð við lausn ágreiningsmála á vinnustað.
  • Ráðgjöf til félagsmanna í atvinnuleit og styrki til atvinnulausra félagsmanna.
  • Félagið er talsmaður/fulltrúi félagsmanna í einstaklingsmálum, ef óskað er eftir.
  • Félagið gerir kjarasamninga fyrir félagsmenn hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði.
  • Aðgang að sjóðum BHM (sjúkrasjóðir, orlofssjóður, starfsmenntasjóðir).
  • Aðgang að orlofshúsum OBHM.
  • Styrki úr Vísindasjóð FÍN (félagsmenn hjá sveitarfélögum).

Félagið veitir óvirkum félagsmönnum þjónustu m.a:

  • Ráðgjöf vegna ráðningarsamninga.
  • Umsagnir vegna umsókna um tímabundið atvinnuleyfi.

Samningur á milli Norðurlandanna um gestaaðild:

  • Samningur um gestaaðild er á milli Norðurlandanna og milli eftirfarandi samtaka, fag- og stéttarfélaga. Hér fyrir neðan er nafn viðkomandi aðila ásamt upplýsingum um netfang tengiliða aðila í viðkomandi löndum:

Land Nafn Netfang tengiliðar 
 Danmörk: Jordbrugsakademikerne post@ja.dk 
  Dansk Magisterforening dm@dm.dk 
 Finnland: Agronomiliitto toimisto@agronomiliitto.fi 
  Loimu  jasenasiat@loimu.fi  
 Ísland: Félag íslenskra náttúrufræðinga  fin@bhm.is  
 Noregur: Naturviterne post@naturviterne.no 
 Svíþjóð: Naturveterna info@naturvetarna.se 

  • Markmið samningsins er að auðvelda félagsmönnum okkar að starfa eða stunda nám á hinum Norðurlöndunum og að þeir geti öðlast gestaaðild að tilsvarandi samtökum, stéttar- eða fagfélagi í dvalarlandi (gestgjafafélagi).
  • Umsókn um gestaaðild skal félagsmaður senda gestgjafafélagi og getur aðeins haft gestaaðild að einu gestgjafafélagi í einu.  Gestaaðild gildir í 3 ár. Ef viðkomandi býr ekki lengur, hættir störfum eða hættir í námi í viðkomandi gestalandi skal viðkomandi tilkynna gestgjafafélagi um það.
  • Með gestaaðild greiðir félagsmaður áfram aðildargjöld til síns heimafélags en á rétt á sömu þjónustu og sömu forsendum og aðrir félagsmenn  sér að kostnaðarlausu.
  • Samningurinn var undirritaður 25. júní 2019.

Ítarefni

Verklagsreglur FÍN um greiðslu lögfræðikostnaðar

Fáðu frekari upplýsingar og ráðgjöf hjá félaginu, áður en þú aðhefst, í síma 595 5175 eða í gegnum netfangið fin@bhm.is . Verklagsreglur um lögfræðiaðstoð sem félagið veitir félagsmönnum sínum eru eftirfarandi:

  1. Félagsmaður hefur ekki heimild til þess að ráða lögfræðing eða aðra í nafni félagsins á þeirri forsendu að félagið muni koma til með að borga fyrir þá þjónustu.
  2. Telji félagsmaður að brotið hafi verið á kjarasamningsbundnum réttindum hans þá á félagsmaður fyrst af öllu að leita til félagsins eftir ráðgjöf.
  3. Meti félagið að lögfræðiaðstoðar sé þörf þá ákveður það hvaða aðili taki málið að sér, ræður lögfræðing formlega til verksins og kemur honum inn í málið. Félagið greiðir aðeins lögfræðikostnað að öllu leyti eða að hluta vegna brota á kjarasamningsbundnum réttindum félagsmanna.
  4. Kjósi félagsmaður að gengið sé frá sáttí máli hans eftir að stefna hefur verið útbúin í máli hans þá skal allur áfallinn lögfræðikostnaður sem félagið hefur borið af málinu og mun bera af málinu greiddur af stefnda samkvæmt tímaskýrslu og skulu þær greiðslur vera hluti af sáttinni. Sé gerð sátt í máli án þess að lögfræðikostnaður sé greiddur að öllu leyti skal félagsmaður standa skil á áföllnum lögfræðikostnaði. Stjórn FÍN getur í undantekningartilvikum fallið frá þessari reglu eða lækkað slíkan lögfræðikostnað sem félagsmaður þarf að bera.
  5. Ef félagsmaður telur að um undantekningartilvik sé að ræða og þessar reglur eigi ekki við um hans mál þá getur hann sent erindi til stjórnar félagsins til frekari meðferðar.

Verklagsreglur FÍN vegna umsagna um tímabundið atvinnuleyfi

Hluti af almennum skilyrðum um tímabundið atvinnuleyfi útlendinga, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, er að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hluteigandi starfsgrein, sbr. c-lið 1. mgr. nefndrar greinar.

Við vinnslu umsagna af hálfu Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) eru eftirfarandi þættir teknir til skoðunar:


  1. Starfið
    1. Fellur starfið undir störf sem almennt eru unnin af félagsmönnum FÍN?
    2.  Hvers eðlis er sú sérfræðiþekking sem krafist er í starfi?
      1. Er þekking/kunnátta atvinnulausra félagsmanna FÍN fullnægjandi?
  2. Menntun / sérfræðiþekking
    1. Hefur umsækjandi menntun/sérþekkingu sem myndi falla að skilyrðum um félagsaðild að FÍN?
    2. FÍN krefst ekki prófskírteina en þarf lágmarks upplýsingar.
  3. Laun og önnur kjör – kjarasamningar
    1. Gildir kjarasamningur um réttindi og skyldur umsækjanda?
      1. Ef svo er – hvaða kjarasamningur gildir?
      2. Ef ekki – litið er til ráðningasamnings og eru réttindi og skyldur metnar út frá lágmarkskjörum á markaði hverju sinni og almennt út frá gildandi kjarasamningi sem FÍN gerir á almennum markaði.
    2. Launakjör
      1.  Tilgreind laun og önnur launatengd kjör metin út frá lágmarkslaunum á opinberum og almennum markaði – miðað við menntun og starf hverju sinni.
    3. Önnur starfstengd kjör
      1. Önnur kjör skulu ekki vera lægri en sem nemur almennt á markaði og/eða sem lög tilgreina. Hér er horft sérstaklega til veikindaréttar, orlofsréttar o.s.frv.
      2. Vinnutíma skal vera hagað að lágmarki í samræmi við gildandi kjarasamning FÍN á almennum markaði.
      3. Ákvæði um greiðslur fyrir yfirvinnu skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga FÍN á almennum markaði og/eða sem lög tilgreina.
  4. Önnur atriði
    1. Umsóknir doktorsnema eru metnar sérstaklega.
    2. Umsóknir og ráðningarsamningar skulu vera að fullu útfylltir og undirritun beggja aðila skal vera til staðar.
    3. Ráðningar erlendra sérfræðinga skulu ekki vera á kostnað félagsmanna FÍN.