Vísindasjóður FÍN

Vísindasjóður FÍN úthlutar styrkjum einu sinni á ári og er ætlað að styrkja félagsmenn til að sækja námskeið, festa kaup á fagbókum o.þ.h.  Allir sem greitt er fyrir til sjóðsins eiga rétt á greiðslu úr honum í réttu hlutfalli við starfstíma og starfshlutfall, aðeins þarf að sækja um styrkinn á ,,Mínum síðum".  Hægt að skoða hvort greitt hafi verið í sjóðinn fyrir viðkomandi undir iðgjöld á „Mínum síðum“. Hafi sjóðfélagi sótt námskeið eða keypt fagbækur er hægt að draga þann kostnað frá styrknum á skattframtali.  Sé enginn frádráttur frá styrknum er hann skattskyldur. Félagsmenn hjá sveitarfélögum eiga aðild að Vísindasjóði FÍN og einnig þeir sem hafa samið um það í ráðningarsamningi.

 Umsókn um styrk

Tekið er á móti umsóknum í Vísindasjóð frá 1. desember til 31. janúar ár hvert. Styrkurinn er greiddur fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. október, árið fyrir úthlutun í samræmi við starfshlutfall og starfstíma.  Hægt er að sækja um fyrir fyrra tímabil hafi viðkomandi ekki sótt um styrk en átt rétt í fyrra.

Umsóknareyðublaðið er aðgengilegt á ,, Mínum síðum " frá 1. desember til 31. janúar ár hvert.  Ef þú lendir í vandræðum þá vinsamlegast sendu inn nafn og símanúmer á netfangið fin@bhm.is og haft verður samband við þig við fyrsta tækifæri. 

Styrkupphæð

Upphæð styrks er í samræmi við starfshlutfall og starfstíma en upphæðirnar í meðfylgjandi töflu miða við fullt starf allan viðmiðunartímann:

Ár
Upphæð
RVK upphæð Viðmiðunartímabili
 2021-2022 160.000 kr   171.000 kr. 1. nóv 2021-31.okt. 2022
 2020-2021 120.000 kr   128.000 kr.1. nóv. 2020-31. okt. 2021 
2019-2020 145.000 kr.   155.000 kr. 1. nóv. 2019-31. okt. 2020
2018-2019 165.000 kr.   176.000 kr. 1. nóv. 2018-31. okt. 2019
2017-2018  150.000 kr.    1. nóv. 2017-31. okt. 2018
2016-2017  140.000 kr.    1. nóv. 2016-31. okt. 2017
2015-2016 135.000 kr.   1. nóv. 2015-31. okt. 2016


Útborgun styrkja

Umsóknir sem berast 19. desember 2022 eða fyrr verða greiddar út eigi síðar en 23. desember 2022.  Umsóknir sem berast þann 20. desember 2022 og eftir það verða greiddar út 3. febrúar 2022.

Hverjir eiga rétt?

Félagsmenn með fulla aðild eða nemaaðild hjá FÍN og starfa hjá Reykjavíkurborg, sveitarfélögum og einstaka félagsmenn á almennum markaði eiga aðild að sjóðnum. Félagsmenn FÍN sem starfa hjá ríki eiga ekki aðild að sjóðnum og geta ekki sótt um styrk. Framlag ríkisins í vísindasjóð var aflagt í kjarasamningum 2008.

Forsenda þess að eiga rétt á styrk úr sjóðnum er að hafa greitt í sjóðinn og því eiga þeir sem eru í fæðingarorlofi eða atvinnulausir félagsmenn ekki rétt á styrkjum úr sjóðnum.

Félagsmenn í óreglulegu starfshlutfalli

Þeir sem starfa í óreglulegu starfshlutfalli verða að veita upplýsingar um starfshlutfall í hverjum mánuði og skal það gert í athugasemdasvæði umsóknarinnar.  Kallað verður eftir þeim upplýsingum ef þær berast ekki með umsókn.

Hvaða gögn eiga að fylgja umsókn?

Engar kvittanir eiga að fylgja umsókn. 

Skattaleg meðferð styrkja

Umsækjendur geta nýtt styrkinn úr sjóðnum til þess að sækja námskeið, festa kaup á fagbókum og fleira. Styrkurinn er forskráður á skattaframtali styrkþega og er talinn fram til skatts eins og aðrar tekjur.  Ef félagsmenn hafa kvittanir sem skatturinn tekur gildar sem kostnað á móti styrknum þá skal draga þann kostnað frá styrknum á skattframtali.  Þá er styrkurinn skattfrjáls.  Sé enginn kostnaður á móti styrknum þá mun styrkurinn verða skattlagður. Til að fá upplýsingar um hvaða kvittanir eru teknar gildar er félagsmönnum bent á að snúa sér til ríkisskattstjóra annað hvort á næstu starfsstöð eða á vef embættins.

Ítarefni:

Skipulagsskrá

 1. Skipulagsskrá Vísindasjóðs Félags íslenskra náttúrufræðinga.
 2. Sjóðurinn heitir Vísindasjóður Félags íslenskra náttúrufræðinga. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
 3. Aðild að sjóðnum eiga þeir félagsmenn FÍN sem greitt er fyrir í sjóðinn.
 4. Markmið sjóðsins er að auka tækifæri félagsmanna FÍN til framhaldsmenntunar, þróunarstarfa og sí- og endurmenntunar.
 5. Stjórn FÍN skipar stjórn sjóðsins í eitt ár í senn  á fyrsta fundi eftir aðalfund. Sjóðsstjórn skal skipuð 4 félagsmönnum sem greiða í sjóðinn ásamt einum fulltrúa úr stjórn FÍN.
 6. Sjóðsstjórn skiptir með sér verkum, setur sér starfsreglur í samræmi við markmið sjóðsins og heldur fundargerðir. 
 7. Tekjur sjóðsins eru: a) Framlag atvinnurekanda, samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi. b) Tekjur af ávöxtun fjármagns. c) Aðrar tekjur. d)Sjóðurinn skal ávaxtaður á þann hátt sem stjórn telur hagkvæmast á hverjum tíma, samkvæmt fjárfestingastefnu sjóðsins sem samþykkt er af stjórn FÍN.
 8. Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og ársreikningur kynntur stjórn FÍN.
 9. Sjóðsstjórn er heimilt að nýta starfsfólk og skrifstofuaðstöðu FÍN vegna úthlutunar styrkja samkvæmt nánara samkomulagi við skrifstofu FÍN.
 10. Stjórn FÍN hefur heimild til að breyta skipulagsskrá Vísindasjóðs FÍN. Sé þess þörf skal tilkynna sjóðfélögum um breytingar sem gerðar eru á skipulagsskrá sjóðsins í fréttabréfi og heimasíðu félagsins.

Samþykkt á stjórnarfundi FÍN þann 6. apríl 2018

f.h. stjórnar FÍN

Maríanna H. Helgadóttir, formaður              

Þorkell Heiðarsson, varaformaður

Starfsreglur

 1. Sjóðurinn greiðir út styrki vegna framhalds-, sí- og/eða endurmenntunar félagsmanna í Félagi íslenskra náttúrufræðinga. Fé sjóðsins má ekki ráðstafa þannig, að það komi í stað samnings- eða lögbundinna réttinda félagsmanna sem stjórnvöld hafa kostað hingað til.  Heimilt er að draga frá kostnað á móti styrkjum á skattframtali (sjá reit 149 á skattframtali), sé slíkur kostnaður ekki fyrir hendi greiðist tekjuskattur af fjárhæð styrksins.
 2. Styrkurinn er greiddur fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. október árið fyrir úthlutun í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Einungis félagsmenn í Félagi íslenskra náttúrufræðinga sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn eiga rétt til greiðslu úr honum.  Hafi félagsmaður ekki sótt um fyrra úthlutunartímabil getur hann sótt um árið eftir.
 3. Úthlutað er árlega úr sjóðnum og skal úthlutun fara fram í desember og janúar. Stjórn ákveður styrkupphæð fyrir fullan úthlutunarrétt hverju sinni og skal félagsmaður hafa tvo mánuði til að senda inn umsókn, þ.e. frá 1. desember til 31. janúar.  Félagsmenn geta eingöngu framlengt úthlutunarrétt í eitt ár. 
 4. Úthlutun úr sjóðnum er  auglýst í fréttabréfi FÍN í nóvember ár hvert.
 5. Skrifstofa FÍN annast úthlutun og útgreiðslu styrkja í umboði stjórnar. Stjórn Vísindasjóðs FÍN er heimilt að endurskoða starfsreglur þessar ár hvert og breytingar skal tilkynna sjóðfélögum í fréttabréfi og á heimasíðu félagsins. 


Reykjavík, 13. mars 2018

Stjórn Vísindasjóðs Félags íslenskra náttúrufræðinga

Lilja Grétarsdóttir, formaður

Hafdís Sturlaugsdóttir

Louise Roux

Stella Hrönn Jóhannsdóttir

Svava S. Steinarsdóttir