Orlof
Orlofsréttur er mismunandi eftir því hvort félagsmaður er opinber starfsmaður eða starfar á almennum vinnumarkaði.
-
Mynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Hér er að finna upplýsingar um rétt til orlofs og orlofslauna samkvæmt lögum og kjarasamningum félagsins.
Réttur til orlofs og réttur til orlofslauna
Orlofsrétturinn er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða rétt til orlofs (frídaga) og hins vegar rétt til launa í fríinu (orlofslaun). Starfsmaður á alltaf rétt á lágmarksorlofi sem er samkvæmt orlofslögum 24 daga en það er háð ávinnslu fjölda orlofsdaga hvað hann fær í orlofslaun, þ.e. 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð. Hafi starfsmaður einungis unnið í 6 mánuði á hann rétt á launum a.m.k. í 12 daga í orlofinu en hann getur hins vegar verið samtals 24 dagar í orlofi, þar af 12 daga launalaust.
Ávinnuslutímabil orlofs
Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. Lágmarksorlof samkvæmt lögum er tveir vinnudagar fyrir hvern unninn mánuð í fullu starfi eða 24 dagar allt orlofsárið, sem er frá maí til apríl (ávinnslutímabil orlofs). Í kjarasamningum er kveðið á um víðtækari rétt til orlofs.
Orlofsréttur
Orlofsréttur á opinberum vinnumarkaði (ríki og sveitarfélög)
Orlofsréttur á opinberum vinnumarkaði, eftir 1. maí 2020, er 30 dagar (240) stundir miðað við fullt starf. Ávinnsla skal vera hlutfallsleg miðað við starfshlutfall og starfstíma félagsmanns.
Áður var orlofsréttur á opinberum vinnumarkaði háð lífaldri, sbr. neðangreint:
Aldur | Orlofsdagar | Vinnuskyldustundir |
---|---|---|
yngri en 30 ára | 24 | 192 |
30 ára | 27 | 216 |
38 ára | 30 | 240 |
Ávinnslutímabil orlofs
Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl (ávinnslutímabil orlofs). Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári. Sumarorlofstímabil er frá 1. maí til 15. september, nema hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem tímabilið er frá 15. maí til 30. september.
Lenging orlofs
Félagsmenn á opinberum vinnumarkaði eiga rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga (120 stundir) samfellda, á sumarorlofstímabili verði því við komið vegna starfa stofnunar. Hjá félagsmönnum hjá sveitafélögum skal samfellt orlof eigi vera skemur en 14 dagar. Sé orlof, eða hluta orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, skal sá hluti orlofs lengjast um 25%.
Veikindi í orlofi
Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími sem veikindum nemur, ekki til orlofs enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofsins.
Frestun orlofs
Frestun orlofs er óheimil milli orlofsára, nema: gegn skriflegri beiðni yfirmanns, sökum fæðingar- og foreldraorlofs eða ef veikindi veldur því að félagsmanni sé ekki unnt að nýta orlof á yfirstandandi orlofsári. Hafi félagsmaður átt ónýtt og gjaldfallið orlof 1. maí 2019, allt að 60 daga, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.
Orlof á uppsagnarfresti
Vinnuveitandi getur ekki ákveðið einhliða orlofstöku á uppsagnarfresti. M.ö.o. þarf að afla samþykkis starfsmanns ef ætlunin er að fella orlofstöku hans inn í uppsagnarfrestinn. Samþykki starfsmaður ekki slíka tilhögun á hann rétt á að fá orlofið gert upp við starfslok. Geri starfsmaður kröfu um orlofstöku á uppsagnarfresti og vinnuveitandi fellst á þá kröfu þannig að ekki komi til lengingar uppsagnarfrests er æskilegt að ganga frá slíku með skriflegum hætti.
Ávinnsla orlofs í fæðingarorlofi
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Fæðingarorlof skerðir ekki rétt til orlofslauna hjá opinberum starfsmönnum.
Lengd orlof - launað orlof
Ein vinnuskyldustund svarar til einnar klukkustundar í starfi sem fer til vinnuskyldu viðkomandi félagsmanns. Vinnuskylda miðað við 100% starf er almennt 40 klst. á viku. Lágmarksorlof er 192 klst. miðað við fullt ársstarf en við 30 og 38 ára lífaldur öðlast starfsmaður lengri orlofsrétt, sbr. hér að framan. Félagsmaður, sem nær viðkomandi lífaldri á því almanaksári sem tímabil sumarorlofs tilheyrir, fær aukið orlof á því orlofstímabili óháð hvenær almanaksársins viðkomandi á afmæli. Þannig að félagsmaður sem nær 30 ára lífaldri í nóvember þá lengist orlofsréttur viðkomandi í 216 vinnustundir þó lífaldri hafi ekki verið náð þegar orlofstaka átti sér stað, þ.e. á tímabilinu 1. maí til 15. september. Sama á við um 38 ára lífaldur nema orlofsréttur viðkomandi er 240 vinnustundir.
Orlofsréttur á almennum vinnumarkaði
Orlofsréttur á almennum markaði er sem hér segir, samkvæmt kjarasamningi félagsins við Samtök atvinnulífsins:
Starfsaldur | Orlofsdagar | Vinnuskyldustundir |
---|---|---|
lágmarksorlof | 24 | 192 |
5 ár í starfsgrein | 25 | 200 |
5 ár hjá sama atvinnurekanda | 27 | 216 |
10 ár hjá sama atvinnurekanda | 30 | 240 |
Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.
Ávinnslutímabil orlofs
Ávinnslutímabil orlofs miðast við orlofsárið sem er frá 1. maí til 30. apríl. Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.
Lenging orlofs
Samkvæmt kjarasamningi FÍN og SA ber að veita a.m.k. fjórar vikur (20 virka daga) á timabilinu 2. maí til 15. september. Þeir sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fá ekki 20 orlofsdaga á sumarorlofstímabilinu eiga rétt á 25% álagi á það sem vantar á 20 dagana.
Veikindi í orlofi
Veikist félagsmaður í orlofi þannig að hann geti ekki notið orlofs á viðkomandi rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin vöruðu. Við slíkar aðstæður skal félagsmaður ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði.
Orlof á uppsagnarfresti
Atvinnurekandi getur ekki ákveðið einhliða orlofstöku á uppsagnarfresti. M.ö.o. þarf að afla samþykkis starfsmanns ef ætlunin er að fella orlofstöku hans inn í uppsagnarfrestinn. Samþykki starfsmaður ekki slíka tilhögun á hann rétt á að fá orlofið gert upp við starfslok. Geri starfsmaður kröfu um orlofstöku á uppsagnarfresti og vinnuveitandi fellst á þá kröfu þannig að ekki komi til lengingar uppsagnarfrests er æskilegt að ganga frá slíku með skriflegum hætti.
Ávinnsla orlofs í fæðingarorlofi
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til frítöku en ekki til greiðslu orlofslauna.
Ítarefni
Orlofsréttur samkvæmt kjarasamningum og lögum
- Ríki
- Samband íslenskra sveitarfélaga
- Reykjavíkurborg
- Samtök atvinnulífsins
- Lög nr. 30/1987 um orlof
- Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkissins (11. grein)