23 ágú. 2024

Mannauður er gulls ígildi

Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN, ritaði eftirfarandi pistil í hátekjublað Heimildarinnar

Þó forstjóri beri ábyrgðina á fyrirtækinu þá er það oft svo að háskólamenntaðir sérfræðingar bera í sameiningu hitann og þungan af verðmætasköpuninni sem verður hjá fyrirtækinu.

Það vilja flestir eiga gullkistu sem er óþrjótandi auðlind, auðlind sem gefur endalaust. Því miður eru auðlindir takmarkaðar, oft viðkvæmar og því er nauðsynlegt að ganga vel um þær. Mannauður er auðlind sem ekkert fyrirtæki getur verið án. Háskólamenntun, sérþekking og rannsóknir eru mikilvægir og nauðsynlegir þættir þegar horft er til framþróunar í vörum og þjónustu.

Háskólamenntaðir sérfræðingar á almennum vinnumarkaði spila stórt hlutverk á Íslandi. Þeir taka þátt í að skapa verðmæti fyrir fyrirtækin í landinu, aftur á móti bera þeir oft á tíðum minna úr býtum en þeir ættu að gera miðað við laun forstjóra og afkomu fyrirtækjanna.

FÍN, Félag íslenskra náttúrufræðinga, er stéttarfélag sem er opið öllu háskólamenntuðu fólki. Í félaginu er fjölbreytt flóra háskólamenntaðra sérfræðinga sem starfa í hinum ýmsum störfum. Þar má m.a. nefna eðlisfræðinga, efnafræðinga, erfðafræðinga, fiskifræðinga, haffræðinga, sjávarútvegsfræðinga, jarðeðlisfræðinga, jarðfræðinga, landslagsarkitekta, lífeðlis- og lífefnafræðinga, líftæknifræðinga, lyfjafræðinga, matvælafræðinga, næringarfræðinga, sameindalíffræðinga, skipulagsfræðinga, tölvunarfræðinga, umhverfisfræðinga, veðurfræðinga og vistfræðinga. Félagið hefur ítrekað verið áskynja um að störf háskólamenntaðs starfsfólks sé ekki metin að verðleikum í ljósi nauðsyn starfanna og hversu mikilvæg þau eru fyrir framlegð fyrirtækjanna. Eðli sínu samkvæmt búa þessi störf til þau verðmæti sem laun forstjóra eru greidd af.

Pexels-jon-t-jonsson-311815878-14838535


Oft veltir maður fyrir sér af hverju háskólamenntaðir sérfræðingar hafa ekki hærri laun en raun ber vitni. Þó forstjóri beri ábyrgðina á fyrirtækinu þá er það oft svo að háskólamenntaðir sérfræðingar bera í sameiningu hitann og þungan af verðmætasköpuninni sem verður hjá fyrirtækinu. Verðmætin verða ekki til hjá forstjóranum heldur er það mannauður fyrirtækisins í heild sinni sem skapar verðmætin. Þrátt fyrir að fyrirtæki virðist geta greitt hvað hæstu laun forstjóra þá eru þau langt frá því að vera eðlileg í ljósi launa háskólamenntaðra sérfræðinga.

Á vef Hagstofunnar má finna dreifingu heildarlauna eftir starfsstétt á almenna markaðnum. Ef við skoðum annars vegar efstu 10% stjórnenda og hins vegar efstu 10% sérfræðinga þá sjáum við að stjórnendur í efstu tíundinni (efstu 10%) voru með heildarlaun yfir 2.7 m.kr. á mánuði árið 2023.

Sambærileg tala fyrir sérfræðinga var rúmlega 1.5 m.kr. þ.e. eingöngu 10% sérfræðinga hafa heildarlaun yfir rúmlega 1.5 m.kr. á mánuði. Munurinn milli heildarlauna hjá efsta lagi sérfræðinga og efsta lagi stjórnenda á almenna markaðnum er sláandi.

Velgengni fyrirtækis til lengri tíma er ekki sjálfbær nema að fyrirtækið geti fengið hæft starfsfólk til starfa. Það þýðir að fólk vilji vinna hjá fyrirtækinu, að það sé ánægt í starfi, fái sanngjarna endurgjöf fyrir framlag sitt til fyrirtækisins ásamt því að fá viðeigandi hlutdeild af velgengni fyrirtækisins í formi launa. Slík fyrirtæki geta verið sjálfbærar gullkistur til lengri tíma.

Hver er eðlilegur munur á launum stjórnenda, sérfræðinga og annarra starfsmanna? Við því er ekkert einfalt svar. Umgjörðin á almennum vinnumarkaði er sú að háskólamenntað starfsfólk semur um sín launakjör. Í kjarasamningum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna við Samtök atvinnulífsins eru engar launatöflur, enginn launaliður eða lágmarkslaun. Stjórnendur virðast eiga mun auðveldara með að semja um laun en háskólamenntaðir sérfræðingar. Það er mikið ójafnvægi milli launamanns og stjórnenda. Stjórnendur eru með alla yfirsýn og alla reynsluna en sérfræðingarnir hafa oftar en ekki litla reynslu af atvinnu- og/eða launaviðtali og því hallar á sérfræðingana. FÍN leiðbeinir félagsfólki sem er að ráða sig til starfa hjá fyrirtækjum eða að fara í launaviðtal til að reyna að draga úr þessu ójafnvægi.

Hvert er rétt virðismat sérfræðings hjá stóru stöndugu fyrirtæki í samanburði við starf sérfræðings hjá litlu ungu nýsköpunarfyrirtæki? Hvert á virði stjórnenda fyrirtækis að vera í samanburði við háskólamenntaðan sérfræðing?

Þessum spurningum er mjög erfitt að svara en eitt er víst að fyrirtæki eru snauð án mannauðs. Mannauðurinn er gulls ígildi.

Greinin birtist í hátekjublaði Heimildarinnar sem kom út 23. ágúst 2024, á bls. 56.