FÍN undirritar kjarasamning við ríkið!
FÍN hefur gengið frá undirritun kjarasamnings við ríkið sem mun taka gildi 1. apríl 2023 og gilda í 12 mánuði. Um er að ræða skammtímasamning ásamt verkáætlun sem unnin verður á samningstímabilinu. Ramminn að launahækkunum kjarasamningsins var unninn á borði heildarbandalaga á opinbera markaðinum og ánægjulegt var að geta lokið við gerð rammans áður en fyrri samningar runnu út.
Einungis var samið um launalið, desember- og orlofsuppbót en aðrir liðir verða ræddir á samningstímabilinu. FÍN mun halda tvo kynningarfundi á Teams, 11. apríl kl. 13:00 og 17. apríl kl. 10:00.
Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn mun hefjast á hádegi þann 17. apríl nk. og ljúka kl. 10:00 þann 20. apríl 2023. Kjarasamningurinn verður sendur félagsmönnum eftir kynningarfundinn 11. apríl ásamt hlekk á upptöku af kynningarfundinum.
Enn er unnið að gerð kjarasamnings við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga en þeir samningar verða ekki kláraðir fyrir páska.
Við óskum félagsmönnum gleðilegrar páskahátíðar.