25 jan. 2021

Umsögn FÍN vegna niðurlagningar Nýsköpunarmiðstöðvar

Félag íslenskra náttúrufræðinga hefur skilað umsögnum vegna frumvarpa um opinberan stuðning við nýsköpun, 322 mál og um Tækniþróunarsjóð, 321 mál.

Í umsögn vegna frumvarps um opinberan stuðning við nýsköpun gerir félagið gerir athugasemdir við framkvæmd ráðherra það er að hefja niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) áður en fyrir liggi samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum sem ráðherra hefur leitt sl. mánuði. Að mati félagins er ljóst að vanda hefði mátt undirbúning mun betur og hafa beint samráð við viðkomandi stéttarfélög og aðra hagsmunaaðila á fyrri stigum og þannig hefði auðveldlega verið unnt að sýna fram á mögulega annmarka sem nú hafa raungerst.

FÍN gerir þrenns konar athugasemdir við framkvæmd af hálfu ríkisins:

 

1. Starfsmönnum er haldið í óvissu um starf sitt, lífsviðurværi, lífeyri og mögulega starfsframa án þess að skýr og afgerandi svör liggi fyrir um hvað verði um störf starfsmanna og þau sjálf eða nokkur trygging sé fyrir að áform ráðherra nái fram að ganga. Hér má sérstaklega vísa til þess að í fyrstu hafi starfsmenn talið að þeim yrði sagt upp fljótlega eftir að áform ráðherra urðu ljós. Að ríkið haldi starfsmönnum sínum í slíkum heljargreipum óvissunnar á tímum aukins atvinnuleysis háskólamenntaðs fólks er með öllu óásættanlegt. Verður að krefja lagasetningarvald um að vanda vinnubrögð og taka tillit til allra þátta sem og allra undirliggjandi aðila þannig að undirbúningur sé með þeim hætti að einstaklingar og fjölskyldur þeirra séu ekki sett í viðlíka aðstöðu og hér hefur verið gert. Ljóst að einstaklingar og fjölskyldur þeirra upplifa kvíða, stress, vonbrigði og vonleysi þegar slíkar óvissu aðstæður koma upp sem getur haft bæði skamm- sem og langtíma áhrif á viðkomandi starfsmenn, fjölskyldumeðlimi þeirra og jafnvel stoðir fjölskyldunnar sjálfrar.

2. Að ráðherra geti tekið einhliða ákvörðun um niðurlagningu eða flutning verkefna milli opinberra stofnana án samþykkis Alþingis er óeðlilegt. Það er óásættanlegt að ráðherra hringli með verkefni opinberra stofnana eingöngu á grundvelli áforma sinna, þ.e. að leggja NMÍ niður og finna verkefnum stofnunarinnar annan farveg í öðru rekstrarformi. FÍN þykir slíkt verulega óeðlilegt í ljósi þess að óvissa sé um hvort frumvarpið verði að lögum, hvenær það verði samþykkt og hvort ákvæði verði óbreytt eður ei í meðförum Alþingis. Mikilvægt er að slíkar tilfærslur séu byggðar á réttmætum og málefnalegum ástæðum eða hafi skýra stoð í lögum/reglugerðum.

3. Sú framkvæmd sem var á flutningi efnagreiningar NMÍ til Hafró bar brátt að og að því virðist án nokkurs fyrirvara. Rétt um hátíðirnar, í miðjum heimsfaraldri og þágildandi samkomutakmarkana, var viðkomandi starfsmönnum tilkynnt að þeim yrði boðið starf hjá Hafró, að þeir ættu að mæta til Hafró til kynningar á húsnæði og starfsemi og afgreiða ætti ráðningarleg atriði, s.s. myndatökur og undirritun ráðningarsamninga. Starfsmönnum var gefinn mjög skammur tími til umhugsunar og mjög lítið af afgerandi upplýsingum um réttindi sín, m.a. hvað varðar biðlaunarétt, hvort að viðkomandi starfsmenn væru að brjóta á skyldum sínum gagnvart NMÍ, hvort áunnin réttindi myndu flytjast yfir o.s.frv. FÍN þykir mjög óeðlilegt að farið hafi verið í slíka tilfærslu með þeim hætti sem gert var og með engum hætti til eftirbreytni. Sérstaklega þar sem með engum hætti var, og er enn þegar umsögn þessi er rituð, vitað með vissu hvort frumvarpið yrði samþykkt, hvenær það yrði samþykkt eða hver efnisákvæði yrðu eftir meðferð Alþingis.

 

Hægt er að lesa umsögn FÍN hér.