18 sep. 2019

Hvað er að frétta af kjaraviðræðum?

Af kjaraviðræðum FÍN við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg

Hvað er að frétta? Ekkert, væri stutta svarið.

Langa svarið væri að þrátt fyrir að FÍN sé búið að leggja fram sína kröfugerð þá erum við ekki að ræða þær kröfur við samningaborðið heldur erum við að ræða kröfur viðsemjandans. Kröfurnar sem viðsemjandinn leggur fyrir okkur varðandi launahækkanir, styttingu vinnuvikunnar og breytinga á greinum er tengjast banni við því að mismuna fólki á grundvelli aldurs. Kröfur viðsemjandans eru af þeim toga að FÍN getur ekki gengið að þeim þar sem selja þyrfti ýmis réttindi sem nú þegar eru í kjarasamningum. Réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur á mörgum árum náð inn í kjarasamninga.

Við erum ekki í samningaviðræðum, við erum í varnarbaráttu, við erum ekki í eiginlegum samningaviðræðum.

En hver eru helstu áherslur FÍN í viðræðum við ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög:

Við viljum hækkun dagvinnulauna þannig að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði aukinn, við viljum ekki krónutöluhækkanir, við viljum að menntun sé metin til launa og við viljum að lágmarkslaun séu hækkuð. Við viljum ekki selja önnur gæði í kjarasamningum á móti hækkun dagvinnulauna.

Við viljum styttingu vinnuvikunnar úr 40 stundum í 35 stundir. Við viljum raunverulega styttingu vinnuvikunnar en ekki selja nein gæði á móti þeirri styttingu.

Við viljum að allir félagsmenn okkar fái 30 daga orlof án þess að þurfa að selja önnur gæði á móti þeirri breytingu.

Mér finnst miður að þurfa að viðurkenna það að ég sé ekki til lands í þessum viðræðum, okkur miðar ekkert áfram. Mig langar að vera bjartsýn um að aðilar finni á endanum leiðir til að landa kjarasamningum, en miðað við hvernig viðræður hafa gengið hingað til eða allt frá 1. apríl sl. er enn langt í land.

Það þarf eitthvað mikið og meira að koma til svo við náum samningum við okkar viðsemjendur.