23 apr. 2019

Vegna umræðu um styttingu vinnuvikunnar

Á nýgerðum kjarasamningum á almennum markaði var samið um styttingu vinnuvikunnar. Í því samhengi er nauðsynlegt að benda á það fyrirkomulag sem er í gildandi kjarasamningum FÍN. 

Í kjarasamningum FÍN er 40 stunda vinnuvika hvort sem unnið er á almennum markaði eða opinberum markaði.  Virkur vinnutími, án kaffitíma, er 37 klst. og 5 mínútur, á viku. Hægt er að semja um það hvenær kaffitímar eru teknir sem eru tveir 15 mín. og 20 mín. hvor, en þeir teljast innan 8 tíma vinnudags, en teljast ekki til virks vinnutíma.  

Í kjarasamningi FÍN við hið opinbera (ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg) kemur fram að heimilt sé að lengja, stytta og fella niður kaffitíma með samkomulagi fyrirsvarsmanna stofnunar og einfalds meirihluta starfsmanna sem málið varðar.

Í kjarasamningi FÍN við Samtök atvinnulífsins (SA) kemur fram að heimilt sé að haga vinnu með þeim hætti sem starfsmaður og vinnuveitandi ná samkomulagi um.

Krafa félgsins undanfarin ár er að stytta virkan vinnutíma (án kaffitíma) úr 37 klst. og 5 mínútum í 35 klst. virka vinnuviku. Styttingu felur í sér 25 mín. styttingu á hverjum virkum vinnudegi sem færi þá úr 7 klst. og 25 mínútum í 7 klst. 

Ekki verður hróflað við kaffitímum í komandi kjarasamningum þar sem félagsmenn okkar hafa nú þegar úrræði til að ráðstafa honum með þeim hætti sem þeir kjósa og margir hafa þegar samið um að nota hann í hádeginu og komast þannig hjá því að taka launalausan hádegisverð.

Það skal áréttað að samkvæmt gildandi kjarasamningum félagsins við aðila vinnumarkaðarins (ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og SA) er innifalið í 40 stunda vinnuviku tveir kaffitímar á dag, 15 mínútur og 20 mínútur, og teljast kaffitímar til vinnutíma. Kaffitímar eru 2 klst. og 55 mínútur af 40 stunda vinnuviku (15+20=35 mínútur x 5 dagar= 2 klst. og 55 mín.) eða 37 klst. og 5 mínútur á viku í virkum vinnutíma eða 7 klst. og 25 mínútur á dag.