2 jan. 2020

Nýárspistill formanns FÍN

Formaður FÍN hefur sett niður nokkur orð í nýárspistil um stöðuna í kjaraviðræðum félagsins sem standa yfir við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Forsætisráðherra lýsti í áramótaávarpi sínu yfir ánægju um að fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekendum hafi undirritað hina umtöluðu lífskjarasamninga og þannig náð nýrri nálgun við gerð kjarasamninga. Forsætisráðherran lætur í veðri vaka að mikilli óvissu hafi verið afstýrt með þessum lífskjarasamningum og fer ekki einu orði um það að stór hópur, hennar eigin starfsmenn þ.e. opinberir starfsmenn, eru enn með lausa kjarasamninga og sumir hafa enn ekki fengið greiddar þær kjarabætur sem þeim voru veittar með úrskurði gerðardóms. En hverjir komu að þessu borði sem forsætisráðherra talar um. Hverjir eru aðilar vinnumarkaðarins? Það virðist vera að í augum stjórnvalda að ASÍ og SA séu þeir aðilar sem kallist aðilar vinnumarkaðarins. Það virðist vera að önnur stéttarfélög eða bandalög þurfi þess vegna að sætta sig við þá samninga sem þessir aðilar hafa gert fyrir sína félagsmenn og undirrita þá eða sitja uppi með enga samninga. Ríkið og sveitarfélög hafa tekið saman höndum og telja sig ekki geta samið við FÍN eða önnur félög með öðrum hætti en SA hefur samið við ASÍ. Það er einnig umhugsunarvert að SA hefur hafnað því að ganga frá kjarasamningi við aðildarfélög Bandalags háskólamanna (BHM) með launaliði inni og þannig vísvitandi haldið aðildarfélögum BHM frá samningsborði almenna markaðarins og launahækkunum þeim til handa.

Mörg aðildarfélög BHM ákváðu í þar síðustu viðræðum að fara í verkfall og reyna að ná samningum á eigin forsendum. Þeirri baráttu lauk með því að Alþingi setti lög á verkföll aðildarfélaga BHM og setti deilu þeirra í gerðardóm. Samkvæmt gerðardómi frá 14. ágúst 2015 átti að innleiða menntunarákvæði inn í stofnanasamninga ríkisstofnana. Nú rúmum fjórum árum síðar hefur enn ekki náðst samningar við allar stofnanir ríkisins um að innleiða menntunarákvæði inn í stofnanasamninga, þar sem ágreiningur var strax uppi um túlkun gerðardómsins. FÍN stefndi því ríkinu fyrir Félagsdóm og nú, í lok nóvember, féll dómur Félagsdóms á þann veg að í megindráttum var fallist á túlkun FÍN. Félagið stendur því frammi fyrir því að stefna ríkinu og þeim stofnunum sem ekki hafa innleitt menntunarákvæði gerðardóms fyrir 1. júní 2020 til að rjúfa fyrningarfrest, en öllum stofnunum bar að innleiða mat á menntun inn í stofnanasamninga frá 1. júní 2016. FÍN sendi öllum ríkisstofnunum í desember sl. áskorunarbréf um að ganga frá menntunarákvæðum inn í stofnanasamninga og hvatti stofnanir til að virða gerða samninga við félagið.

Ef vilji stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er að aðilar ræði saman sem einn hópur og nái hófstilltum kjarasamningum með sambærilegri aðferðarfræði og er viðhöfð á Norðulöndunum þá þarf ýmislegt að breytast og gerast til að við náum slíkum kjarasamningum eða fyrirkomulagi um gerð slíkra kjarasamninga. Sátt á vinnumarkaði næst ekki með ofbeldi ríkisins, Samtaka atvinnulífsins, Reykjavíkurborgar eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Alþýðusamband Íslands. Traust milli aðila er ekki til staðar, traust er eitthvað sem aðilar ávinna sér á löngum tíma. Ef við viljum virkilega og ætlum okkur raunverulega að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga þá þurfa samningsaðilar að gera það í sameiningu, allir þurfa að vera við samningaborðið. Fyrsta skrefið er að ganga frá vegvísi milli aðila sem hefur það að meginmarkmiði að skapa umgjörðina í kringum slíkt fyrirkomulag.

Því skal haldið til haga að BHM undirritaði ekki SALEK rammasamkomulagið 2015 sem gert var við hluta vinnumarkaðarins, en engu að síður voru aðildarfélög BHM þvinguð til að una við það samkomulag hvað varðar launahækkanir og jafnframt var BHM þvingað til að skrifa undir breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, en með því samkomulagi var lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna breytt, frá og með 1. júlí 2017, því fylgdu loforð um að jafna kjör opinbera starfsmanna á milli markaða, engar efndir hafa orðið á því loforði. Opinberir atvinnurekendur verða að virða gefin samningsloforð og stéttarfélögin kalla eftir því að fyrstu skrefin verði tekin að jafna laun milli markaða í þessum kjaraviðræðum. Nú er sama uppi á teningnum aftur, BHM kom ekki að borðinu þegar lífskjarasamningarnir svokölluðu voru gerðir, en samt á eftir sem áður að þvinga aðildarfélög BHM, eitt og eitt að ganga frá undirritun lífskjarasamningsins eða að ekki verður gengið frá kjarasamningi við þau. Þetta ofbeldi sættum við okkur ekki við. Svona aðfarir að samningsfrelsi stéttarfélaga er varla til þess fallið að flokkast sem bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

Náttúrufræðingar eru ein af mikilvægustu stéttunum í samfélaginu og ljóst er að menntun þeirra og rannsóknir eru mjög mikilvæg í baráttunni við ýmsar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, s.s. loftlags- og umhverfismál.

FÍN krefst þess m.a. við kjarasamningsborðið að menntun náttúrufræðinga sé metin til launa og að lágmarkslaun verði 500.000 kr. fyrir alla félagsmenn FÍN sem hafa lokið fyrstu háskólagráðu (BS/BA), að launahækkanir tryggi aukinn kaupmátt, að fyrstu skrefin verði tekin að jafna laun milli markaða, að allir félagsmenn séu með 30 orlofsdaga og að félagsmenn geti valið sér lífeyrissjóð.

Nú eru liðnir meira en 9 mánuðir frá því að kjarasamningar Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) urðu lausir við atvinnurekendur á opinberum markaði og samningar á almennum markaði gilda þar til nýir eru gerðir. Staðan við kjarasamningsborðið er því heilt yfir ekki góð. Það fyrirkomulag sem er ráðandi við samningaborðið gengur ekki upp, atvinnurekendur sýna okkur virðingarleysi, vantraust er milli aðila og vanvirðing er áberandi gagnvart samningarétti stéttarfélaga. Við þetta verður ekki unað.

Oft nást ekki samningar nema að gripið sé til verkfallsvopnsins, en nú þegar eru teikn á lofti um að einhver stéttarfélög munu líklega beita verkfallsvopninu fyrir sig á þessu ári. FÍN hefur ætíð staðið vörð um þau störf sem ríki og sveitarfélög vilja að séu undanþegin verkföllum. FÍN hefur nokkrum sinnum stefnt ríkinu og Reykjavíkurborg vegna verkfallslista vegna auglýsingar á störfum sem ríkið vildi að yrði undanþegið verkföllum. Í febrúar sl. þá mótmælist félagið því að 15 störf yrðu á lista um störf sem væru undanþegin verkfallsheimild hjá ríkinu og einu starfi hjá Mosfellsbæ. Málið var fellt niður gegn Mosfellsbæ þar sem þeir féllust á það að taka starfið út af lista um störf sem væru undanþegin verkföllum. FÍN stefndi ríkinu fyrir Félagsdóm vegna þessara 15 starfa og í desember sl. féllst Félagsdómur á að fella út af lista alls 11 störf af 15. Það er ekki óskastaða að fara í verkfallsátök til að ná fram bættum kjörum, en komi til þess þá stendur félagið vel og félagið hefur byggt upp sterkan verkfallssjóð.

Framundan er því erfitt samningsár og ekki ljóst hvenær verður gengið frá kjarasamningum við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga og vonast til þess að félaginu auðnist að ganga frá góðum kjarasamningum fljótlega á þessu ári og helst án mikilla átaka.

Með nýárskveðju,

Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN