4 sep. 2019

Hindranir á Norðurlöndunum

Stéttarfélög náttúrufræðinga á Norðurlöndunum sameinast um að benda á hindranir sem verða á vegi félagsmanna þeirra sem hyggjast starfa á hinum Norðurlöndunum og hvetja stjórnvöld til að útrýma þessum hindrunum.

Náttúrufræðingar á Norðurlöndum hafa unnið að því að greina og taka saman upplýsingar um margvíslegar hindranir sem félagsmenn þeirra finna fyrir innan Norðurlandanna, en þær eru fleiri en margir myndu halda, ásamt því að gera tillögur að lausnum.

Afrakstur þessarar samvinnu er skýrsla sem ber heitið „Nordic Work Mobility and Labour Market – for Professional Scientist” og var hún gefin út nú í sumar með fjárstuðningi frá Norðurlandaráði. Þau stéttarfélög náttúrufræðinga á Norðurlöndunum sem standa að þessari skýrslu eru: Félag íslenskra náttúrufræðinga á Íslandi, Jordbrugsakademikerne í Danmörku, Agronomiliitto og Loimu í Finnlandi, Naturviterna í Noregi og Naturveterne í Svíþjóð.

Skýrslan var unnin undir stjórn Naturveterne í Sviþjóð og var ritstjóri skýrslunnar Tobias Lundquist, en höfundar texta voru þau Jacob Holmberg, Tobias Lundquist, Heidi Hännikäinen, Suvi Liikkanen, Trygve Ulset, Maríanna H. Helgadóttir, Jacob Neergaard, Hanne Jensen, Marjaana Kousa og Arja Varis.

Stéttarfélög náttúrufræðinga á Norðurlöndunum sameinast um að benda á hindranir sem verða á vegi félagsmanna þeirra sem hyggjast starfa á hinum Norðurlöndunum og hvetja stjórnvöld til að útrýma þessum hindrunum.

Náttúrufræðingar á Norðurlöndum hafa unnið að því að greina og taka saman upplýsingar um margvíslegar hindranir sem félagsmenn þeirra finna fyrir innan Norðurlandanna, en þær eru fleiri en margir myndu halda, ásamt því að gera tillögur að lausnum.

Afrakstur þessarar samvinnu er skýrsla sem ber heitið „Nordic Work Mobility and Labour Market – for Professional Scientist” og var hún gefin út nú í sumar með fjárstuðningi frá Norðurlandaráði. Þau stéttarfélög náttúrufræðinga á Norðurlöndunum sem standa að þessari skýrslu eru: Félag íslenskra náttúrufræðinga á Íslandi, Jordbrugsakademikerne í Danmörku, Agronomiliitto og Loimu í Finnlandi, Naturviterna í Noregi og Naturveterne í Svíþjóð.

Skýrslan var unnin undir stjórn Naturveterne í Sviþjóð og var ritstjóri skýrslunnar Tobias Lundquist, en höfundar texta voru þau Jacob Holmberg, Tobias Lundquist, Heidi Hännikäinen, Suvi Liikkanen, Trygve Ulset, Maríanna H. Helgadóttir, Jacob Neergaard, Hanne Jensen, Marjaana Kousa og Arja Varis.

Landamærahindranir

Meðal þeirra hindrana sem í ljós komu við þessa vinnu, var að í reynd er ekki fullkomlega frjálst flæði vinnuafls innan Norðurlandanna. Frjálst flæði vinnuafls er afar mikilvægt fyrir samstarf Norðurlandanna og getur haft margvísleg jákvæð áhrif, til að mynda yfirfærslu þekkingar milli landa og betri skilning á aðstæðum í hverju landi.

Náttúrufræðingar gegna lykilhlutverki í uppbyggingu græns samfélags. Þeir hafa reynslu og þekkingu um hvað virkar og hvað virkar ekki þegar kemur að því að skapa sjálfbæra framtíð. Loftslagsbreytingar eru alheimsvandamál, en þó að um sé að ræða alheimsvandamál þá þarf að leysa staðbundin vandamál á hverjum stað. Þar gegna náttúrufræðingar lykilhlutverki og því mikilvægt að þeir geti hindranalaust flutt sig á milli landa til að leysa í samvinnu við heimamenn þau vandamál sem koma upp á hverjum stað.

Í því ljósi erum við sannfærð um að frjálst flæði vinnuafls innan Norðurlandanna skili mun betri árangri við lausn ýmissa vandamála og jafnframt auka líkurnar á gagnkvæmu lærdómsferli.

Frjálst flæði vinnuafls getur að sama skapi haft jákvæð áhrif á stöðu atvinnumála hjá félagsmönnum okkar. Sem dæmi má nefna að þó að atvinnuleysi sé lítið í Noregi, á það t.d. ekki við um líffræðinga. En ef við á sama tíma vitum að það er skortur á fólki með slíka menntun í öðru norrænu landi, þá er það augljós samfélagsleg ábyrgð okkar að leggja okkar af mörkum til að tengja brýr þar á milli og þar með koma landamærahindrunum fyrir kattarnef. Stéttarfélög náttúrufræðinga vilja þar leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Almenn umfjöllun um starfstengdar landamærahindranir eru aðallega á hendi Norðurlandaráðs og hafa þær vissulega verið þar til umræðu, en viðbrögð stjórnvalda í hverju landi fyrir sig hafa verið mun minni en vonir stóðu til. Stéttarfélög á Norðurlöndunum vona að stjórnmálamenn geti unnið saman að því markmiði að finna lausnir á þeim málum sem Norðurlandaráð hefur bent á og jafnframt hefur verið gert með þeirri skýrslu sem hér er til umræðu.

Viðurkenning á starfsgreinum getur verið vandamál

Margar starfsstéttir á Norðurlöndunum eru skilgreindar í lögum eða reglum eða jafnvel geiranum sjálfum. Þar sem eftirspurn eftir vinnu hjá ákveðnum starfsgreinum er misjöfn eftir Norðurlöndunum getur þetta stundum verið hindrun á frjálsu flæði vinnuaflsins. Sumar starfsstéttir hljóta viðurkenningu með samningum sem ná yfir landamæri eða norræna samninga, aðrar falla undir tilskipun ESB um starfsréttindi eða önnur alþjóðalög. Aðrar starfsgreinar eru ekki viðurkenndar eða krafist er viðbótarnáms eða reynslu svo þær öðlist viðurkenningu. Mikilvægt er því að samræma viðurkenningu á starfsgreinum milli Norðurlandanna.

Minnkum skrifræðið og tökum upp stafrænar lausnir

Töluvert skrifræði fylgir því að fá kennitölu í viðkomandi landi, sem skapar ýmsar hindranir. Að sama skapi fylgir mikil pappírs- og/eða tölvuvinna þegar opna þarf bankareikning, fá greidd laun, greiða reikninga og svo framvegis. Með þeim stafrænu lausnum sem til eru í dag þá teljum við að það séu til þægilegri leiðir og við vonum að stjórnmálamenn okkar muni vinna að því að leysa þetta vandamál sem fyrst og koma á rafrænum skilríkjum sem gilda á öllum Norðurlöndunum.

Fjölskylduvænar aðstæður eru mikilvægar

Stéttarfélögin hafa orðið áþreifanlega vör við að það sem félagsmönnum þykir erfiðast við flutning til annars Norðurlands tengist oftast ekki starfinu heldur hversdagslífinu eða fjölskyldunni. Það getur reynst sérstaklega snúið í þeim málaflokkum er varða börn þeirra sem flytjast milli landa. Í sumum löndum er til að mynda erfitt að koma barni á leikskóla áður en það hefur formlega flutt til landsins. Það eru líka mismunandi reglur milli landanna hvað varðar orlof foreldra. Það væri því mikill kostur að samræma þau réttindi á Norðurlöndunum er varða fjölskylduna.

Tungumálakunnátta er mikilvæg

Auðvitað eru hin misjöfnu tungumál Norðurlandanna einnig ákveðin hindrun og takmarkar að einhverju leyti hreyfanleika náttúrufræðinga milli landa. Jafnvel þó að margir skilji hin tungumál landanna, er ekki jafn auðvelt að nota tungumálið í daglegum samskiptum. Sérstaklega má í þessu samhengi nefna það að hjá hinu opinbera eru gerðar svo mikilar kröfur um góða kunnáttu í tungumáli viðkomandi lands að það telst ákveðin hindrun. Því er mikilvægt að ríkisstjórnir Norðurlandanna auðveldi háskólamenntuðum sérfræðingum að taka námskeið í viðkomandi tungumáli, ásamt því að bæta í skólum almenna tungumálafræðslu varðandi tungumál Norðurlandanna.

Samningur um gestaaðild milli Norðurlandanna

Félög náttúrufræðinga á Norðurlöndunum, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Jordbrugsakademikerne og Dansk Magisterforening í Danmörku, Agronomiliitto og Loimu í Finnlandi, Naturviterna í Noregi og Naturveterne í Svíþjóð, hafa undirritað samning sín á milli um svo kallaða gestaaðild .

Við teljum að samningurinn um gestaaðild muni auðvelda náttúrufræðingum að leita sér að starfi í öðru norrænu landi og að fá aðstoð í viðkomandi landi. Einnig er þessi samningur um gestaaðild okkar framlag til að vinna gegn áhrifum landamærahindrana.

Hvatning til stjórnvalda

Við vonum að skýrslan hvetji stjórnvöld á Norðurlöndunum til að halda áfram því góða starfi sem þegar hefur átt sér stað og tryggi áframhaldandi vinnu á þessu sviði ásamt því að setja það í forgang að útrýma landamærahindrunum milli Norðurlandanna.

Það er von okkar að þessi skýrsla muni koma til með að hreyfa við þessum málum í rétta átt, auðveldi háskólamenntuðum sérfræðingum að átta sig á hvað mætir þeim sem vilja starfa eða stunda nám í öðru Norðurlandi.

Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN (Félag íslenskra náttúrufræðinga)

Þessi grein er í grunninn birt á öllum Norðurlöndunum, en hefur tekið einhverjum áherslubreytingum milli landa.

Greinin birtist einnig í Morgunblaðinu, sjá hér .

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg  hér.