18 maí 2022

FÍN SENDIR KÆRU TIL MANNRÉTTINDADÓMSTÓLS EVRÓPU

Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hefur ritað Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) kæru vegna skipunar Félagsdóms, sem stéttarfélagið telur að brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Telur FÍN að það fyrirkomulag í íslenskum lögum að Hæstiréttur tilnefni meirihluta dómara Félagsdóms feli í sér brot á reglu mannréttindasáttmálans sem ætlað er að tryggja sjálfstæðan, óháðan og óvilhallan dómstól.


Kæran byggir á því að FÍN og félagsmaður þess hafi í dómsmáli sem rekið var fyrir Félagsdómi nýverið ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir dómstólnum líkt og lögfest er með 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Dómsmálið háði FÍN gegn íslenska ríkinu. FÍN telur að brotalamir á réttlátri málsmeðferð hafi falist í því að Félagsdómur sé ekki sjálfstæður, óháður og óvilhallur dómstóll í skilningi sáttmálans. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/1938 eru þrír af fimm dómurum Félagsdóms skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Engin sérstök lagaákvæði eða reglur gilda hins vegar um fyrirkomulag þess þegar Hæstiréttur tilnefnir þá dómara ólíkt íslenskum lagareglum sem gilda um skipanir dómara við aðra dómstóla landsins. Í kærunni bendir FÍN á að Hæstiréttur sé ekki bundinn af neinum málsmeðferðarreglum við ákvörðun um það hvaða einstaklinga hann tilnefnir sem dómara í Félagsdóm. Tilnefningarferlið sé því algjörlega ógagnsætt. Í kærunni greinir að þar sem tilteknir dómar og úrskurðir Félagsdóms sæti kæru til Hæstaréttar dragi öll afskipti Hæstaréttar, bein og óbein, af skipan dómara við Félagsdóm, úr ásýnd Félagsdóms um sjálfstæði hans. Fáist það því vart staðist að sami dómstóll og er æðri dómstóll gagnvart Félagsdómi í tilteknum málum tilnefni dómara í undirdómstólinn, hvað þá meirihluta dómsins.

Í kærunni er vísað til skýrslu frá alþjóðlegri spillingarnefnd, Group of States against Corruption ("GRECO"), sem gefin var út 28. mars 2013, þar sem hafðar eru uppi efasemdir um skipunarferli Hæstaréttar á dómurum í Félagsdómi. Meðal þess sem GRECO finnur að í skýrslu sinni er að umræddar dómarastöður séu ekki auglýstar opinberlega til umsóknar og að sambærileg, óháð og gagnsæ málsmeðferð sé ekki viðhöfð líkt og þegar dómarar eru skipaðir við aðra dómstóla lands.

Nánari upplýsingar veitir lögmaður FÍN, Jón Sigurðsson hrl., JS lögmannsstofu, s. 516-4000, jon@jsl.is