Áskorun frá FÍN
Áskorun til Alþingis, stjórnvalda, rektors LBHÍ og skólameistara FSU:
HYSJIÐ UPP UM YKKUR BUXURNAR!
Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) lýsir miklum áhyggjum af stöðu Garðyrkjuskólans að Reykjum sem er innan Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHI). Lilja Alfreðssdóttir, f.v. menntamálaráðherra ákvað á Þorláksmessu 2020, án samráðs við Alþingi, að Garðyrkjuskólinn yrði fluttur frá LBHÍ yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSU). Það vekur furðu að ráðherra, með einu pennastriki, taki slíka ákvörðun og er það mat félagsins að eðlilegt væri að Alþingi tæki þessa ákvörðun en ekki sé um að ræða geðþóttaákvörðun ráðherra.
Frá því að ráðherra tók þessa ákvörðun var rektori LBHÍ og skólameistara FSU, falið af f.v. ráðherra að komist að samkomulagi um flutninginn. Þess má líka geta að núverandi ráðherrar, háskólaráðherra Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir og menntamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hafa báðir lýst vilja sínum um að staðið verði við loforð fyrrverandi ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Drög að samningi milli rektors LBHÍ og skólameistara FSU dagaði uppi sl. vetur þar sem aðilar náðu ekki saman um yfirflutninginn. Þannig að enginn samningur liggur fyrir milli skólana tveggja um hvernig flutningnum skuli háttað.
Það vekur furðu að garðyrkjunám við Garðyrkjuskólann sé auglýst í gegnum FSU án þess að formlegur samningur liggi fyrir um yfirfærsluna. Einnig hefur rektor LBHÍ ákveðið, í gær, þrátt fyrir að enginn samningur um yfirflutning námsins frá LBHÍ yfir til FSU liggi fyrir, að leggja niður störf allra sérfræðinga sem starfa við kennslu við Garðyrkjuskólann. Þess má geta að með þessu er ekki tryggt að skólameistari FSU geti ráðið þessa einstaklinga til sín. Það er engin trygging fyrir því að þeir starfsmenn sem sagt var upp muni sækjast eftir starfi hjá FSU og skólameistara FSU er óheimilt að ráða þessa einstaklinga í stöður hjá FSU án auglýsingar.
Aðstaða til kennslunnar og aðrir starfsmenn Garðyrkjuskólans, eru enn undir stjórn LBHÍ. FSU hefur því ekki umráðarétt með núverandi starfsaðsstöðu Garðyrkjuskólans, þar með er FSU ekki tryggð nein vinnuaðstaða til kennslu fyrir nemendur hjá FSU. Þeir sem til þekkja átta sig á því að kennsluaðstaðan á Reykjum er mikilvæg og aðstaðan þarf að vera á forræði þess sem hefur umsjón og ábyrgð með garðyrkjunáminu.
Það er því grafalvarleg staða uppi. Garðyrkjunámið er orðið að bitbeini, líklega tveggja núverandi ráðherra og rektors og skólameistara skólanna. Á meðan líður starfsemin fyrir það, nemendur og starfsfólk Garðyrkjuskólans einnig. Á þessari stundu er framtíð Garðyrkjuskólans óljós með öllu.
Félagið skorar á Alþingi, stjórnvöld, rektor LBHÍ og skólameistara FSU um að hysja upp um sig buxurnar og ganga frá yfirflutningnum frá LBHÍ til FSU svo sómi sé að. Í því sambandi er mikilvægt að öllum lögum og réttum ferlum sé fylgt og réttindi og skyldur starfsmanna séu tryggð við yfirfærsluna og ekki fyrir borð borin.
___________________________
Frekari upplýsingar veitir:
Maríanna H. Helgdóttir, formaður, s. 8649616