1 jan. 2022

Nýárspistill formanns FÍN

Nýtt ár mætir okkur með nýjar áskoranir, bæði áskoranir sem að við setjum okkur sjálf sem og aðrar sem við þurfum að takast á við hvort sem að okkur líkar það betur eða verr. Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram ýmis mál og áskoranir sem að FÍN og eftir atvikum félagsmenn FÍN munu þurfa að takast á við. Til að ræða þessi mál sem og önnur mun félagið hitta félagsmenn á vinnustaðafjarfundum og verða fundirnir nýttir til að vinna að kröfugerð félagsins gagnvart okkar viðsemjendum.


Kæru félagsmenn

Nýtt ár mætir okkur með nýjar áskoranir, bæði áskoranir sem að við setjum okkur sjálf sem og aðrar sem við þurfum að takast á við hvort sem að okkur líkar það betur eða verr. Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram ýmis mál og áskoranir sem að FÍN og eftir atvikum félagsmenn FÍN munu þurfa að takast á við. Til að ræða þessi mál sem og önnur mun félagið hitta félagsmenn á vinnustaðafjarfundum og verða fundirnir nýttir til að vinna að kröfugerð félagsins gagnvart okkar viðsemjendum.

Samningsborðið og embætti ríkissemjara

Það kemur ekki á óvart að í ríkisstjórnarsáttmálanum komi fram að ríkisstjórnin ætli „að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu.“ Jafnframt ætlar hún „að leggja sitt að mörkum við að halda lágu vaxtastigi, hóflegri verðbólgu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.“ Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins séu allir við þetta borð en ekki bara sumir. Fram kemur í stjórnarsáttmálanum að stuðla eigi „að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.“ Forvitnilegt verður að sjá hvað felist í því, en markmið félagsins hefur verið að ná góðum samningum en ekki einungis að ganga frá samningi. Það verður einnig áhugavert að sjá hvaða hugmyndir og útfærslur verða að baki því að „Styrkja þurfi hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hóf fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.“ Það er áhyggjuefni ef það mun á einhvern hátt skerða athafnir stéttarfélaga og verður fróðlegt að sjá hvernig þessu máli framvindur. Það kann að vera jákvætt að styrkja hlutverk ríkissáttasemja ef það felst í að bæta undirbúning og verklag kjarasamninga. Umboð til kjarasamninga fyrir félagsmenn FÍN er hjá félaginu, en ekki hjá Bandalagi háskólamanna eða ríkissáttasemjara.

Kynbundin launamunur og jafnlaunavottun

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að „draga eigi úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.“ Ríkið hefur innleitt jafnlaunavottun og það er tilfinning okkar að vottunin sé skrifuð utan um launaumhverfið á hverjum stað, utan um hvern launþegahóp. Það er mjög sérstakt að engar breytingar urðu á launþegahópum í kjölfar jafnlaunavottunar svo félagið viti til. Félagið hefur lengi haldið því á lofti að launamun má helst rekja til mismunandi launasetningar sambærilegra starfa á milli stofnana. Það er mikill munur á launasetningu sérfræðinga félagsins sem starfa á þar sem lægstu dagvinnulaunin eru og þar sem greidd eru hæstu dagvinnulaunin fyrir sambærilega sérfræðinga. Þær stofnanir sem greiða hæstu launin hafa oft verið karllægar en lægri laun hafa verið greidd á stofnunum þar sem fleiri konur starfa. Einnig hafa fjölmennar stofnanir oftar en ekki verið með lægri laun en fámennar og vaktavinnustofnanir hafa lægri launasetningu en dagvinnustofnanir. Það er mikilvægt að ríkið greini betur laun á stofnunum ríkisins og gerð sé bragarbót á tölfræðinni þannig að fleiri breytur skili sér til stéttarfélaganna svo hægt sé að greina betur hvar launamunurinn liggur. Leiðrétta þarf launakjör sambærilegra sérfræðinga innan ríkisins þar sem sýnt er að laun þeirra séu lægri en gengur á gerist á öðrum stofnunum ríkisins.

Lífeyrissjóður LSR og Brú og nýjar lífslíkutöflur

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að „ríkisstjórnin muni í samvinnu við aðila vinnumarkaðins vinna að því að renna styrkari stoðum undir lífeyriskerfið og stuðla að aukinni sátt um uppbyggingu og hlutverk ólíktra hluta þess.“ Lífeyrismálin eru verulegt áhyggjuefni. Þann 22. desember sl. voru birtar nýjar lífslíkutöflur á vef fjármálaráðunetisins. Þegar þær taka gildi er ljóst að þær munu hafa áhrif á eignasafn lífeyrissjóðanna með þeim hætti að útreiknaður framtíðarlífeyrir verður lægri en var. FÍN varaði við þessu þegar breytingar voru gerðar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og vildi að nýju lífslíkutöflurnar yrðu notaðar þegar verið var að meta fjármagn sem átti að fylgja við yfirfærsluna úr jafnri ávinnslu yfir í aldurtengda ávinnslu. Opinberir starfsmenn sem voru virkir í sjóðunum áttu ekki að skerðast við yfirfærsluna yfir í nýtt kerfi. Til að bregðast við hækkandi lífaldri þjóðarinnar og fyrirsjáanlegum skerðingum á væntum lífeyri landsmanna þá verður gripið til þess að hækka lífeyristökualdur. Bandalag háskólamanna tók þátt í gerð samkomulags þess efnis að breyta lífeyriskerfi opinberra starfsmanna úr jafnlaunaávinnslu og færa það kerfi yfir í aldurstengda ávinnslu, FÍN varaði ítrekað við þessu samkomulagi og greiddi atkvæði gegn því en engu að síður varð samkomulagið samþykkt með meirihluta stéttarfélaga BHM. Samið var um að á næstu 6-10 árum ætti að jafna laun á milli markaða. Nú hafa liðið 6 ár og engar leiðréttingar hafa litið dagsins ljós. Nefnd um jöfnun launa hefur starfað í sex ár og reiknað út og skilað niðurstöðum en aðilar ná ekki saman um það hvernig eigi að standa að leiðréttingunum. Í kjarasamningum FÍN við Samband íslenskra sveitarfélaga var ávarpað að fyrstu skrefin, varðandi jöfnun launa milli markaða, yrðu tekin 1. janúar 2021, en því miður hafa engar leiðréttingar verið gerðar. Þess má einnig geta að við þessa breytingu á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna eru opinberir starfsmenn í vistarböndum hjá sínum vinnuveitendum hvað varðar lífeyrisréttindi. Þeir geta ekki með góðu móti hafið störf á almennum markaði því að við vistaskiptin mun lífeyrisaukinn sem samið var um falla niður, nema að samið sé sérstaklega um aukaframlag frá nýjum vinnuveitanda á almennum markaði. Nýir starfsmenn hjá hinu opinbera hafa sömu lífeyriskjör og starfsmenn á almennum markaði, þeir eru í aldurstengdu kerfi og fá ekki lífeyrisauka eins og þeir starfsmenn sem voru við störf þegar kerfinu var breytt. Þeir eru á sömu launum og opinberir starfsmenn en á lægri launum en gengur og gerist á almennum markaði þar sem enn er ekki búið að jafna laun milli markaða. Við þurfum án tafar að jafna laun á milli markaða, koma í veg fyrir vistarbönd og koma á einum vinnumarkaði á Íslandi. Til þess að svo verði þarf að aðlaga lagaumhverfið á vinnumarkaði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Fjórða iðnbyltingin, rannsóknir, nýsköpun, sí- og endurmenntun

Í stjórnarsáttmálanum er mikið fjallað um nýsköpun, menntun, rannsóknir, sí- og endurmenntun. Fjórða iðnbyltingin sem slík er áskorun fyrir alla og því er mikilvægt að sí- og endurmenntun sé aðgengileg okkar félagsmönnum. Mikilvægt er að þverfagleg menntun sé efld þar sem við stöndum frammi fyrir margskonar breytingum og áskorunum sem krefjast skapandi hugsun, lausnir, þekkingu og vísindarannsóknir til að takast á við þær. Vegna tæknibreytinga framtíðar er mikilvægt að samhliða þeim sé færni og hæfni okkar félagsmanna aukin og því þarf að efla sí- og endurmenntun háskólamenntaðra sem og alþjóðlegt samstarf/rannsóknir.

Í sáttmálanum kemur fram að „Aukin þekking og skapandi lausnir á brýnum áskorunum munu einnig leysa úr læðingi mikil tækifæri í verðmætasköpun sem verða grunnur að velsældarsamfélagi framtíðarinnar.“ Nýsköpun er oftast langhlaup og það tekur tíma að sjá hagnað af þróunarstarfi. Mikilvægt er að „þolinmótt“ fjármagn sé aðgengilegt fyrir frumkvöðla og aðgengi að ráðgjöf sé góð og á viðráðanlegu verði. Félagið tekur heilshugar undir með ríkisstjórninni að „mikilvægt sé að starfsmennta- og háskólar í landbúnaði séu öflugir og í fararbroddi í rannsóknum á sviði landbúnaðar og umhverfismála.“ Mikilvægt er að fjármagn fylgi þessu átaki svo af þessu megi verða. Ríkisstjórnin ætlar að „styðja við öflugt styrkjakerfi, samstarf við háskólasamfélagið og stuðningsumhverfi rannsókna og þróunar til að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.“ Í þessu samhengi er mikilvægt að ríkið veiti fjármuni og jafnframt efli rannsóknasjóði t.d. í samvinnu við fyrirtæki. Mikilvægt er að kjara- og réttindaumhverfi þeirra sem starfa við rannsóknir sem byggðar eru á styrkjum sé tryggt. Einnig ætlar ríkisstjórnin að „efla rannsóknir, nýsköpun og menntun í ferðaþjónustu“, það verður „haldið áfram að styrkja uppbyggingu nýsköpunar á landsbyggðinni með Lóu-nýsköpunarstyrkjum“ og að lokum telur hún „að efla þurfi samkeppnissjóði á sviði grunnrannsókna og tækniþróunar og halda áfram þróun vísindasjóða.“ Það fer sem sé mikið fyrir því í stjórnarsáttmálanum að fjalla um nýsköpun, þróun, rannsóknastarf, uppbyggingu, sí- og endurmenntun, breytingar á löggjöf og fræðslu, en það er áhyggjuefni hvernig staðið verður að þessu og hvaðan fjármunir eiga að koma til að sinna þessum verkefnum.

Löggjöf og regluverk á sviði vinnumarkaðar

Það vekur upp spurningar hvað sé átt við í stjórnarsáttmálanum þegar talað er um að „löggjöf og regluverk á sviði vinnumarkaðar verði skoðað í samhengi við þróun vinnumarkaðarins og breytinga á ráðningarformi milli launafólks og atvinnurekanda.“ Líklega munu sjálfstætt starfandi sérfræðingar í auknu mæli vinna sem einyrkjar eða jafnvel að þeir verði ráðnir sem ráðgjafar á fleiri en einum stað í lægri starfsprósentum þannig að fyrirtækið hafi aðgang að viðkomandi sérfræðingi þegar fyrirtækinu hentar. Þetta er mikil áskorun fyrir þessa einstaklinga sem ákveða að vera einyrkjar og FÍN mun veita leiðbeiningar og þróa ráðgjöf hjá félaginu til þessara félagsmanna til að tryggja réttarstöðu þeirra eins og allra annara félagsmanna félagsins.

Ohf og ehf

Það er mjög sérstakt að lesa um það í stjórnarsáttmálunum að það eigi að „koma í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“ þar sem ríkið hefur sjálft stofnað til einkahlutafélaga á síðasta ári í stað þess að stofna opinbert hlutafélag (ohf) og þá er ég að vísa til stofnunar Tækniseturs ehf sem varð til við niðurlagningu ríkisstofnunarinnar Nýsköpunarmiðstöð. Hvað ríkinu gengur til að leggja niður stofnanir ríkisins og stofna einkahlutafélög í staðinn er mikið áhyggjuefni.

Hreyfanlegt vinnuafl og fjarvinna

Mikilvægt er að vinna að því að auðvelda fólki að starfa á fleiri en einum stað, hvar sem er í heiminum án þess að tapa réttindum. Vilji virðist vera til staðar til að auðvelda erlendum sérfræðingum að setjast að hér á landi en við þurfum líka að huga að því að sérfræðingar frá Íslandi geti sest að úti á landi og jafnvel erlendis. Mikilvægt er því að huga að réttindum þessara hópa.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að „haldið verði áfram að styðja við nýsköpun, m.a. með regluverki og umhverfi sem styður við stofnun og rekstur fyrirtækja, ekki síst í fámennari byggðum.“ Einnig kemur fram að „til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega“. Jafnframt kemur fram að „sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni“. Því til viðbótar kemur fram að „stutt verði við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni.“ Síðan kemur fram að „beita þurfi hagrænum hvötum í byggðaþróun, m.a. í gegnum Menntasjóð námsmanna.“ Að lokum kemur fram að „stutt verði við þekkingarmiðstöðvar, rannsóknasetur á landsbyggðinni, náttúrustofur og fjarheilbrigðisþjónustu í smærri byggðalögum.“ Þessi nálgun getur verið jákvæð, en það þarf að ná utan um þessa umgjörð í komandi kjarasamningum.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að „unnið verði að útgáfu fullgildra opinberra stafrænna persónuskilríkja.“ Í þessu samhengi er mikilvægt að hugað sé betur að því að útrýma hindrunum sem launþegar geta staðið frammi fyrir ef þeir kjósa að vinna í öðrum Norðurlöndunum. FÍN var aðili að gerð skýrslu um hvaða hindranir hafa komið upp, en þessi skýrsla var unnin af náttúrufræðingum á Norðurlöndunum, með stuðningi Norðurlandaráðs.

Kulnun vegna streitu og neikvæð vinnustaðamenning

Við þurfum að einhenda okkur í rót vandans til að koma í veg fyrir að fólk lendi í kulnun vegna streitu og álags í starfi. Margir sem vinna í streitumiklu umhverfi og á vinnustöðum þar sem vinnustaðamenning er ekki góð geta lent í kulnun. Kulnun er dýr fyrir samfélagið og við höfum allt að vinna að snúa þessari þróun við. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „einstaklingum sem missa starfsgetuna verður í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu.“ Í því samhengi er mikilvægt að einstaklingar þurfi ekki að bíða lengi eftir fyrstu hjálp, bið eftir þjónustu getur haft þau áhrif að viðkomandi verður lengur frá vinnumarkaði. Jafnframt kemur fram í sáttmálanum að „unnið verði markvisst að því að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.“ Þetta er ánægjuleg nálgun en kemur líka á óvart því nýtt vaktakerfi launþega í kjarasamningum byggir á því að fólk sé ekki í hlutastörfum og að fólk í hlutastörfum á ekki möguleika á að fá vaktahvata. Þetta þarfnast umræðu í komandi kjarasamningaviðræðum.

Sorgarleyfi

Félagið fagnar því að í stjórnarsáttmálanum komi fram að „foreldrum sem missa barn verður tryggt sorgarleyfi.“ Mikilvægt að sorgarleyfi sé launað leyfi en ekki ólaunað leyfi eins og foreldraorlof.

Undirbúningur kröfugerðar

Á komandi ári mun undirbúningur vera í brennidepli vegna viðræðna við stærstu viðsemjendur okkar um kaup, kjör, réttindi og skyldur, en samningar við ríkið, sveitarfélögin og Reykjavíkurborg renna út í mars 2023. Við viljum að félagsmenn taki virkan þátt í mótun kröfugerðar FÍN gagnvart okkar viðsemjendum, það er sameiginleg ábyrgð okkar að standa saman og ná sem bestum árangri í kjaraviðræðum á hverjum tíma. Umboð til gerð kjarasamninga liggur hjá stéttarfélaginu og er stjórn félagsins samninganefnd félagsins. FÍN er aðili að Bandalagi háskólamanna en bandalagið er ekki með samningsumboð fyrir FÍN eða önnur stéttarfélög. Við treystum engu að síður á að stéttarfélögin sjái hag í því að sýna samstöðu í gerð kjarasamninga og reyna að ná góðum kjarasamningum, hvort sem við förum ein í viðræður eða í sameiginlegar viðræður með öðrum stéttarfélögum.

Í FÍN starfar helmingur félagsmanna á almennum markaði og mikilvægt er að umhverfi almenns vinnumarkaðar sé þannig úr garði gert að koma í veg fyrir undirboð á markaði og mikilvægt er að efla skil á tölfræðigögnum til stéttarfélaganna, s.s. heildarlaun, dagvinnulaun, fjöldi yfirvinnutíma og starfshlutfall. Oft er samið um heildarlaun á almennum markaði og þau laun eiga að duga fyrir allri þeirri vinnu sem viðkomandi þarf að inna af hendi hvort sem það er mikil yfirvinna eða bakvakt. Mikilvægt er að ráðningarsamningur milli starfsmanns og vinnuveitanda sé gerður á grunni kjarasamnings þó samið sé um heildarlaun fyrir starfið. Skynsamlegast væri ef sett yrði í lög að öllum launagreiðendum væri skilt að skila tilteknum tölfræðigögnum mánaðarlega með staðgreiðsluskilagrein til ríkisskattstjóra og að þessi gögn myndu skila sér rafrænt til viðkomandi stéttarfélags og Kjara- og tölfræðinefndar (KTN).

Vinnustaðafundir

Félagið mun halda vinnustaðafundi (fjarfundi) á vinnustöðum, við munum senda út kannanir til að kanna hvar áherslur okkar félagsmanna liggur varðandi kröfugerð félagsins. Einnig geta félagsmenn sent okkur tölvupóst á netfangið fin@bhm.is um hvað þeim finnst mikilvægt að félagið leggi áherslu á í kjaraviðræðum eða á sjálfum vinnustaðafundinum.

Framboð til formanns FÍN

Að lokum vil ég upplýsa félagsmenn FíN um að ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram sem formaður félagsins og vona að félagsmenn treysti mér til að gegna því hlutverki áfram, en ég hef starfað hjá félaginu í 15 ár og er enn tilbúin að vinna að hagsmunum og bættum kjörum félagsmanna næsta kjörtímabil fái ég tækifæri til þess.

Lokaorð

Ég óska öllum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs nýs árs og vona að árið verði þeim öllum ánægjulegt!

Með bestu kveðjum,

Maríanna H. Helgadóttir, formaður

Félags íslenskra náttúrufræðinga


Publication2