1 jan. 2021

Nýárspistill formanns

Nú höfum við kvatt árið 2020 sem fer í sögubækurnar sem eitt undarlegasta ár í sögu Félags íslenskra náttúrufræðinga. Þegar heimsfaraldur knúði dyra var ljóst að allt starf félagsins þyrfti að vera með öðru sniði. Félagið var statt í miðjum kjaraviðræðum þegar faraldurinn hófst og þurftu fundir og viðræður að færast í fjarfundi. En þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður voru kjarasamningar kláraðir við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um mitt sumar.

Merkasti áfanginn í þessum samningum er tvímælalaust stytting vinnuvikunnar. Með henni eru tekin tímamótaskref á íslenskum vinnumarkaði þar sem styttingin stuðlar að bættum lífskjörum og betri samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Með þessum breytingum næst fram gagnkvæmur sveigjanleiki sem eykur á lífsgæði félagsmanna ásamt því að bæta vinnustaðamenningu. Styttingin sem tók gildi núna 1. janúar 2021 er útfærð á mismunandi vegu í takt við mismunandi þarfir stofnana. Vert er þó að benda á mikilvægi þess að halda áfram að þróa leiðir og útfærslur til þess að félagsmenn njóti ávinningsins af styttingu vinnuvikunnar.

Núna í haust hóf FÍN fundarherferð þar sem haldnir voru vinnustaðafundir á stofnunum og hjá sveitarfélögum og voru allir fundirnir í formi fjarfunda. Farið var yfir styttingu vinnuvikunnar ásamt kynningu á kjarasamningum, stofnanasamningum og öðrum sértækum málum. Vinnustaðafundir eru kjörinn vettvangur fyrir félagsmenn til að hittast, fá innsýn í starf stéttarfélagsins og á sama tíma fræðast um eigin réttindi. Haldnir voru 27 vinnustaðafundir og verður framhald á þeim á næsta ári. Seinni hluti ársins hefur einnig einkennst af viðræðum um stofnanasamninga en þar er eitt helsta verkefnið að innleiða menntunarákvæði gerðardóms inn í samningana. Öllum stofnunum ríkisins bar að innleiða mat á menntun inn í stofnanasamninga 1. júní 2016, samkvæmt ákvæðum gerðardóms frá 14. ágúst 2015 en því miður á enn eftir að innleiða ákvæðin hjá mörgum stofnunum. FÍN hefur stefnt ríkinu fyrir félagsdómi vegna þessa gerðardóms og hafa fallið þrír dómar og ein dómssátt verið gerð. Í þeim dómum hefur í megindráttum verið fallist á sjónarmið FÍN um menntun. Því er ljóst að eitt stærsta verkefnið 2021 er að ljúka innleiðingunni og halda ótrauð áfram í stofnanasamningsgerð.

Faraldurinn hefur valdið því að ekki er hægt að hafa opið fyrir heimsóknir á skrifstofu félagsins, né heldur Þjónustuver BHM, og sinna starfsmenn nú erindum með fjarfundum. Hjá skrifstofu félagins geta félagsmenn nálgast ráðgjöf um lagaleg álitaefni, réttindi, ráðningarsamninga og margt fleira. Öllum þeim sem vilja leita til skrifstofunnar er bent á að hafa senda tölvupóst á fin@bhm.is en öllum erindum þar er svarað innan tveggja virkara daga. Við vonumst til þess að geta opnað skrifstofuna fyrir heimsóknir fljótlega aftur á nýju ári og munum upplýsa félagsmenn þegar breytingar verða þar á. Að auki bendum við öllum á að fylgja síðu Félags íslenskra náttúrufræðinga á facebook og á heimasíðu félagins en hún er reglulega uppfærð með öllum nýjustu fréttum frá félaginu.

Ef hægt er að draga lærdóm af árinu 2020 fyrir félagið er hann sá að mikilvægi náttúrufræðinga í samfélaginu hefur glögglega komið í ljós á þessum óvenjulegu tímum. Hvarvetna hef ég orðið þess áskynja að náttúrurfræðingar eru ómissandi hlekkur í samfélaginu í baráttunni við Covid-19 og hefur menntun og rannsóknir náttúrufræðinga leikið lykilhlutverk. Hið þýðingarmikla hlutverk náttúrfræðinga í samfélaginu þarf að vera betur sýnilegt almenningi og meta þarf þeirra framlag til samfélagsins með sanngjörnum hætti.

Í takti við fréttir af bóluefni og með von um að lífið geti aftur farið að ganga sinn vanagang, horfi ég bjartsýnum augum til ársins 2021 og sendi ykkur hugheilar nýárskveðjur. Ég hlakka til samstarfsins á nýja árinu.

Maríanna H. Helgadóttir, formaður