9 sep. 2020

Er hæfni til verkefnastjórnunar náttúrulegur eiginleiki?

Rakel Sæmundsdóttir vann lokaverkefni í MPM námi (meistarnám í verkefnastjórnun) við Háskólann í Reykjavík þar sem hún rannsakaði hversu víðtæk verkefnastjórnun er á meðal náttúrufræðinga á Íslandi. Leiðbeinandinn hennar var Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir. Ritgerðin bar heitið "Er hæfni til verkefnastjórnunar náttúrulegur eiginleiki? : staða þekkingar á verkefnastjórnun meðal náttúrufræðinga á Íslandi". Félagið auglýsti á vefsíðu og facebook síðu félagsins þessa könnun fyrir Rakel. Nú liggja niðurstöður rannsóknar hennar fyrir. Rakel vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem svöruðu spurningakönnuninni hennar. Ritgerðin hennar er jafnframt aðgengileg á Skemmunni fyrir þá sem vilja kynna sér efni hennar. 

Útdráttur:

"Verkefni og verkefnavinna er stór þáttur í vinnu þeirra sem hafa lokið námi í náttúruvísindum en lítil áhersla er oft á verkefnastjórnun í slíku námi. Því var leitast við í þessari rannsókn að kanna hver væri staða þekkingar á verkefnastjórnun meðal náttúrufræðinga á Íslandi og hvort að þörf væri á að auka við þá þekkingu. Til að reyna að svara þessari spurningu var framkvæmd spurningakönnun meðal náttúrufræðinga þar sem kom í ljós að einhver þekking var til staðar en að hana þyrfti að auka. Þá kom einnig fram áhugi meðal þátttakenda á frekari þjálfun í verkefnastjórnun sem ætti að vera hvati til að auka þverfaglega kennslu innan náttúrufræða, líkt og kennslu í verkefnastjórnun."