20 nóv. 2019

Niðurstaða Félagsdóms 20. nóvember 2019

Þrátt fyrir að ekki hafi verið fallist á allar kröfur félagsins fyrir Félagsdómi þá er niðurstaða dómsins jákvæð og í stórum dráttum í samræmi við túlkun FÍN á menntunarákvæðum kjarasamnings.

Þann 20. nóvember voru kveðnir upp úrskurðir í málum nr. 7, 8 og 9/2019 af Félagsdómi vegna menntunarákvæða kjarasamnings Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stofnanasamninga FÍN og annars vegar Hafrannsóknarstofnunar, rannsókna- og ráðgjafastofnunar hafs og vatna (Hafró) og hins vegar Umhverfisstofnunar.

FÍN stefndi íslenska ríkinu, Hafró og Umhverfisstofnunar vegna þriggja félagsmanna FÍN í tengslum við ágreining FÍN og viðkomandi stofnana um túlkun menntunarákvæða er áttu rót sína að rekja til gerðardóms, dags. 14. ágúst 2015. Í grunninn taldi FÍN að meta skyldi hverja þá menntun er félagsmenn hefðu aflað sér til launaflokkshækkana annað hvort á grundvelli kröfu til menntunar í starfi eða á grundvelli nýtingu menntunar í starfi. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) og viðkomandi stofnanir töldu aftur á móti að taka ætti eingöngu tillit til æðstu menntunar viðkomandi starfsmanns.

Í máli nr. 9/2019 er sérstaklega fjallað um menntun sem krafist er í starfi og menntun sem nýtist í starfi. Þar hafði viðkomandi félagsmaður tvær meistaragráður. Í stuttu máli taldi Félagsdómur að önnur meistaragráðan hafi verið krafist í starfi og meta hafi átt til fjögurra launaflokka á grundvelli kröfu um menntun í starfi. Jafnframt taldi Félagsdómur að hin meistaragráðan hafi nýst í viðkomandi starfi og verið á fagsviði sem tengist því starfi og því einnig átt að meta til fjögurra launaflokka á grundvelli menntunar sem nýtist í starfi. Þar að leiðandi féllst Félagsdómur á að félagsmaður skulu njóta átta launaflokka hækkunar samtals vegna hinna tveggja meistaragráða.

Í málum nr. 7 og 8/2019 taldi Félagsdómur að undanfari að doktorsprófi sé meistara- eða kandídatspróf. Í forsendum dómsins segir: „[...] að full launaflokkahækkun [samkvæmt ákvæði um menntun sem nýtist í starfi] verði aðeins náð ef undanfarandi framhaldsnám hafi ekki þegar verið metið til launaflokkahækkunar á grundvelli[…]“ menntunar sem krafa er um í starfi. Sambærileg umfjöllun var í þessum málum og í máli nr. 9/2019 hvað varðar menntun sem krafist sé í starfi og menntun sem nýtist í starfi. Í þessum málum var viðkomandi meistaragráða og doktorsgráða á sama fagsviði. Taldi Félagsdómur að meistaragráðan hafi verið undanfari doktorsgráðunnar og því hafi viðkomandi félagsmenn eingöngu rétt á sex launaflokka hækkun samtals vegna beggja ákvæðanna.

Niðurstaða Félagsdóms í fyrrgreindum málum felur í sér að fallist sé í grunninn á skilning FÍN á menntunarákvæðunum að við ákvörðun launaflokkahækkana á grundvelli menntunar skuli annars vegar vera gerð vegna kröfu um menntun í starfi og hins vegar menntunar sem nýtist í starfi og sé á fagsviði sem tengist því starfi. Hafi því Félagsdómur ekki fallist á einhliða túlkun KMR.

Sé gerð krafa um ákveðna menntun í starfi þá skuli meta hana að fullu í samræmi við menntunarákvæðin og sé til staðar hvers konar önnur menntun sem nýtist í starfi þá skuli sú menntun að auki vera metin til launaflokkahækkunar. Þó með þeirri undantekningu að full launaflokkahækkun samkvæmt ákvæðum um menntun sem nýtist í starfi fáist ekki hafi viðkomandi menntun þegar verið metin til launaflokkahækkunar á grundvelli menntunar sem krafa er um í starfi, s.s. sem undanfari. Fela forsendur Félagsdóms því í sér að meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvort menntun skuli koma til fullrar launaflokkahækkunar og þá hvort meta skuli hverja menntun sjálfstætt.

Þannig verður að telja að sé menntun sem krafist er í starfi óskyld menntun sem nýtist í starfi þá teljist ekki að um undanfara sé að ræða og því beri að meta viðkomandi menntun sjálfstætt enda hafi menntunin ekki verið metin samkvæmt öðrum ákvæðum. Má því segja að ef krafist sé doktorsgráðu í starfi en viðkomandi hafi aðra háskólagráðu, sem nýtist í starfi, þá skuli sú gráða koma til fullrar launaflokkahækkunar í samræmi við viðkomandi ákvæði enda sé menntunin hvorki undanfari né skyld þeirri menntun sem metin hefur verið á grundvelli þess að vera krafa um í starfi.

Uppfært 5. desember 2012: Á heimasíðu Félagsdóms má nálgast framangreinda dóma - sjá hér