9 ágú. 2018

Félagsdómur staðfestir að trúnaðarmenn skuli hafa greiðan og óskertan aðgang til að sækja nauðsynlega fræðslu

Þann 4. júlí sl. féll dómur í félagsdómsmáli nr. 3/2018 - Alþýðusamband Íslands gegn Akureyrarkaupstað.

Í dóminum reynir á túlkun ákvæða um trúnaðarmenn í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvort starfsmaður í vaktavinnu eigi rétt á launum án vinnuframlags vegna fyrirframákveðinna kvöldvakta þá daga er trúnaðarmannanámskeið fór fram. 

Kjarni ágreinings aðila er hvaða skilning ber að leggja í grein 14.2.9.1 í kjarasamningi aðila sem fjallar um trúnaðarmannanámskeið. 

Þar segir: „Trúnaðarmönnum á vinnustað skal gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi. Hver trúnaðarmaður hefur rétt á að sækja námskeið. Þeir sem námskeiðin sækja skulu halda reglubundnum launum í allt að fimm vinnudaga á ári enda séu námskeiðin viðurkennd af samningsaðilum. […]“

Trúnaðarmaðurinn taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með setu á námskeiði en Akureyrarbær taldi svo ekki vera heldur hefði honum borið að mæta til vinnu að námskeiði loknu enda hefði námskeiðið farið fram utan hans vinnutíma.

Niðurstaða Félagsdóms í málinu er skýr og ótvíræð. Krafa um að trúnaðarmaður ynni kvöldvaktir strax í kjölfar námskeiðsins ella sæta launaskerðingu hamlaði rétti hans til að sækja trúnaðarmannanámskeið enda fæli það í raun í sér 16 tíma vinnudag sem samræmist hvorki ákvæðum kjarasamninga né laga. Niðurstaða þessi festir í sessi áralanga túlkun stéttarfélaga um greiðan og óskertan aðgang trúnaðarmanna til að sækja nauðsynlega fræðslu.

Ákvæðið í umræddum kjarasamningi er efnislega sambærilegt ákvæðum um trúnaðarmenn í kjarasamningum BHM félaga á opinberum markaði. Óhætt er að ganga út frá því að sömu sjónarmið og reyndi á í málinu eigi við um trúnaðarmenn aðildarfélaga BHM. 

Dóminn má nálgast hér