14 mar. 2018

Nýjar starfsreglur Vísindasjóðs FÍN.

Framvegis fá allir sjóðfélagar greidda styrki m.v. greidd iðgjöld í sjóðinn á úthlutunartímabilinu.  

Stjórn Vísindasjóðs Félags íslenskra náttúrufræðinga samþykkti þann 13. mars sl. breytingar á starfsreglum sjóðsins. 

Til að samræma rétt sjóðfélaga til úthlutunar úr sjóðnum innbyrðis m.v. greidd iðgjöld og til að samræma reglur sjóðsins reglum sambærilegra vísindasjóða innan BHM ákvað stjórn sjóðsins að ákvæði um rétt til úthlutunar fyrir sjóðfélaga í fæðingarorlofi yrðu felld út. Framvegis fá allir sjóðfélagar greidda styrki m.v. greidd iðgjöld í sjóðinn á úthlutunartímabilinu.   

Breytingin tekur gildi m.v. næstu úthlutun eða frá 1. nóvember 2017.  

Nýjar starfsreglur Vísindasjóðs FÍN

  1. Sjóðurinn greiðir út styrki vegna framhalds-, sí- og/eða endurmenntunar félagsmanna í Félagi íslenskra náttúrufræðinga. Fé sjóðsins má ekki ráðstafa þannig, að það komi í stað samnings- eða lögbundinna réttinda félagsmanna sem stjórnvöld hafa kostað hingað til.  Heimilt er að draga frá kostnað á móti styrkjum á skattframtali (sjá reit 149 á skattframtali), sé slíkur kostnaður ekki fyrir hendi greiðist tekjuskattur af fjárhæð styrksins.
  2. Styrkurinn er greiddur fyrir tímabilið 1. nóvember til 31. október árið fyrir úthlutun í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Einungis félagsmenn í Félagi íslenskra náttúrufræðinga sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn eiga rétt til greiðslu úr honum.  Hafi félagsmaður ekki sótt um fyrra úthlutunartímabil getur hann sótt um árið eftir.
  3. Úthlutað er árlega úr sjóðnum og skal úthlutun fara fram í desember og janúar. Stjórn ákveður styrkupphæð fyrir fullan úthlutunarrétt hverju sinni og skal félagsmaður hafa tvo mánuði til að senda inn umsókn, þ.e. frá 1. desember til 31. janúar.  Félagsmenn geta eingöngu framlengt úthlutunarrétt í eitt ár. 
  4. Úthlutun úr sjóðnum er  auglýst í fréttabréfi FÍN í nóvember ár hvert.
  5. Skrifstofa FÍN annast úthlutun og útgreiðslu styrkja í umboði stjórnar. Stjórn Vísindasjóðs FÍN er heimilt að endurskoða starfsreglur þessar ár hvert og breytingar skal tilkynna sjóðfélögum í fréttabréfi og á heimasíðu félagsins. 

Reykjavík, 13. mars 2018

Stjórn Vísindasjóðs Félags íslenskra náttúrufræðinga

Lilja Grétarsdóttir, formaður
Hafdís Sturlaugsdóttir
Louise Roux
Stella Hrönn Jóhannsdóttir
Svava S. Steinarsdóttir