4 maí 2017

Niðurstaða aðalfundur FÍN 2017 

Kjör í trúnaðarstörf, lagabreytingar, örlog orlofshúsa FÍN og ályktanir aðalfundar

Á aðalfundi FÍN sem haldinn var í lok mars sl. voru eftirfarandi aðilar kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir félagið:

Kjörnir til 2 ára:
Varaformaður FÍN: Þorkell Heiðarsson - Reykjavíkurborg
Fulltrúi trúnaðarmanna: Björg Helgadóttir - Reykjavíkurborg var kosinn af trúnaðarmönnum á starfsdegi trúnaðarmanna þann 25. apríl sl.
Meðstjórn: Ína Björg Hjálmarsdóttir -Landspítala - Blóðbanka, Sigurlaug Skírnisdóttir - Matís, Sævar Ingþórsson - Háskóla Íslands, Stella Hrönn Jóhannsdóttir - Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Bergljót Sigríður Einarsdóttir - Framkvæmdasýslu ríkisins, Kári Gunnarsson - sjálfstætt starfandi, Ásdís Benediktsdóttir - Íslenskum orkurannsóknum og Sigurlaug María Hreinsdóttir - Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Kjörin til 1 árs í meðstjórn: Rakel Júlía Sigursteinsdóttir - Actavis

Frá fyrra ári sitja:
Formaður FÍN: Maríanna H. Helgadóttir - Félagi íslenskra náttúrufræðinga
Meðstjórn: Trausti Baldursson - Náttúrufræðistofnun Íslands, Svava S. Steinarsdóttir - Reykjavíkurborg, Guðrún Nína Petersen - Veðurstofu Íslands, Lilja Grétarsdóttir - Reykjavíkurborg, Louise le Roux - Íslenskri erfðagreiningu, Sverrir Daníel Halldórsson - Hafrannsóknarstofnun, Hafdís Sturlaugsdóttir - Náttúrustofu Vestfjarða og Haraldur Rafn Ingvason - Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Þær lagabreytingar tillögur sem finna má í fundargögnum hér voru samþykktar. 

Eftirfarandi tillaga stjórnar FÍN: "Stjórn FÍN leggur til að Félag íslenskra náttúrufræðinga hætti orlofshúsarekstri." var samþykkt með miklum meirihluta greiddra atkvæða. FÍN mun því hætta rekstri orlofshúsa eftir að sumarorlofstímabili 2017 lýkur.

Þá voru eftirfarandi ályktanir einnig samþykktar á aðalfundi: 

Aðalfundur FÍN 30. mars 2017 ályktar: Um bætt vinnubrögð um kjarasamningagerð og þróun vinnumarkaðslíkans

Forsenda þess að bætt vinnubrögð verði innleidd við kjarasamningagerð og að þróun vinnumarkaðslíkans í komandi framtíð sé raunverulegur möguleiki er að faglega sé unnið að undirbúningi og gerð kjarasamninga.

Vinnumarkaðslíkan er langferð og að mörgu þarf að hyggja en fyrstu skrefin eru þau að launaupplýsingar þurfa að vera samræmdar og tiltækar fyrir allan vinnumarkaðinn og þau gögn samanburðarhæf svo aðilar deili ekki um þær.  Allir aðilar vinnumarkaðarins, ríki, sveitarfélög, atvinnurekendur, bandalög og einstök stéttarfélög þurfa að koma að mótun og gerð vinnumarkaðslíkansins eigi að vera sátt um slíkt líkan.

Áður en hægt er að móta slíkt líkan þarf langan aðdraganda en fyrsta skrefið er að móta aðgerðaráætlun án skuldbindinga og vinna eftir henni í sátt og samlyndi þannig að traust skapist milli aðila. 

Verðmætamat á störfum í dag er ekki eins á milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera og því þarf að fjalla málefnalega um verðmætamat starfa og leiðrétta launsetningu þeirra sem standa höllum fæti samkvæmt greiningu á mati á einstökum störfum starfsstétta áður en vinnumarkaðslíkan er mótað.

Félagið gerir þá kröfu að ríkið og sveitarfélögin standi við fyrirheit sitt sbr. 7. gr. samkomulagsins frá 19. september sl. sem gert var á milli Bandalags háskólamanna (BHM), BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna.

Í kröfugerð félagsins hefur félagið lagt til að aðilar vinnumarkaðarins setji saman vegvísi til að þróa einn vinnumarkað á Íslandi.  Komi til þess þarf að afnema sérlög um opinbera starfsmenn (lög nr. 70 1996 og 94/1986) verði afnumin en í stað þess gildi sömu lög (80/1938) um opinbera starfsmenn og annað launafólk.

Aðalfundur FÍN hafnar því alfarið að gerast aðili að SALEK-rammasamkomulaginu eða öðrum samkomulögum sem geta litið dagsins ljós ef ofangreindar forsendur eru ekki fyrir hendi.  Aðalfundur FÍN telur mikilvægt að BHM móti sér stefnu í þessum málum og beinir þessari ályktun til umfjöllun á aðalfundi BHM.

Aðalfundur FÍN 30. mars 2017 ályktar: Um stöðu náttúrufræðinga á vinnumarkaði

Í Félagi íslenskra náttúrufræðinga eru margar fagstéttir og atvinnuleysi háskólamanna er viðvarandi ástand sem hefur snert félagsmenn okkar hjá félaginu eftir hrun.  Áður fyrr var atvinnuleysi náttúrufræðinga nánast ekkert.  Aukin tækifæri og aukið fjármagn til rannsókna gæti verið sá þáttur sem myndi hafa góð áhrif og minnka mögulega atvinnuleysi okkar félagsmanna og koma þannig einnig samfélaginu til góða. 

Mikilvægt er að sett verði á fót úrræði í gegnum Vinnumálastofnun sem beint væri sérstaklega að atvinnulausum háskólamönnum. Leitað þyrfti ýmissa leiða með samstarfi við aðildarfélög BHM og atvinnurekendur til að bregðast við atvinnuleysi háskólamanna og þróa ýmis úrræði í gegnum Vinnumálastofnun.

Aðalfundur FÍN beinir því til aðalfundar BHM að BHM muni leggja við Vinnumálastofnun að markvissar aðgerðir til að bregðist við atvinnuleysi og landflótta háskólamanna.  

Aðalfundur FÍN 30. mars 2017 ályktar: Um breytingar á A-deild LSR og Brú

Félagsmenn á aðalfundi FÍN harma þær breytingar sem gerðar voru á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og krefjast þess að ríkið og sveitarfélög tryggi að fullu það samkomulag sem undirritað var milli ríkisins, sveitarfélaganna, BSRB, KÍ og BHM.  Þess er krafist að ríkið og sveitarfélögin hafi frumkvæði að því að leiðrétta launamun á milli markaða og að fyrstu skrefin verði tekin í komandi kjarasamningum

Fundargerð aðalfundar 2017 má finna hér.