Ráðningarsamningar
FÍN veitir félagsfólki ráðgjöf vegna ráðningarsamninga, hvað varðar kjör og réttindi auk túlkunar á slíkum samningum. Hægt er að bóka viðtal fyrir yfirferð ráðningarsamninga með því að senda póst á fin@fin.is
Hér að neðan má finna nánari upplýsingar um innihald ráðningarsamninga auk ráðningarsamningsforms.
Innihald ráðningarsamnings
Ráðningarsamningur er samningur milli starfsmanns og vinnuveitanda þar sem kveðið er á um vinnuframlag starfsmanns í þágu vinnuveitanda gegn tilteknu gjaldi í formi launa og annarra starfskjara frá vinnuveitanda. Skylt er að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi milli starfsmanns og forstöðumanns/vinnuveitanda við upphaf ráðningar.
Með því að taka skýrt fram í ráðningarsamningi hvaða reglur skuli gilda um ráðningarsamband, bæði varðandi starfið og þau kjör sem því fylgja er hægt að koma í veg fyrir ágreining síðar. Í ráðningarsamningi skal m.a. tilgreina eftirfarandi atriði:
- Deili á aðilum, nöfn og kennitölur vinnuveitanda og starfsmanns
- Vinnustað og heimilisfang vinnuveitanda (starfsstöð)
- Starfsheiti
- Vinnutímaskipulag og starfshlutfall
- Upphafstíma ráðningar og lengd ráðningar, sé hún tímabundin, ásamt uppsagnarfresti
- Ráðningarkjör, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur
- Orlofsrétt
- Rétt til launa í veikindum
- Lífeyrissjóð og stéttarfélag
Breytingar á ráðningarkjörum umfram það sem leiðir af lögum eða kjarasamningum skal staðfesta með skriflegum ráðningarsamningi.