Lífeyrisréttindi
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með greiðslu í lífeyrissjóð frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

Ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð
- Ellilífeyri til æviloka
- Örorku- og barnalífeyri ef sjóðsfélagi missir starfsgetu
- Maka- og barnalífeyri við fráfall sjóðfélaga
- Möguleika á lánum frá lifeyrissjóði
Er valfrjálst í hvaða lífeyrissjóð er greitt?
Aðild að lífeyrissjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar kjör viðkomandi félagsmanns. Félagsmenn í FÍN á opinberum vinnumarkaði greiða annað hvort í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) eða Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga (Brú). Aðrir geta valið lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Félagsmenn í FÍN á almennum vinnumarkaði geta óskað eftir aðild að LSR (A deild) með sérstöku leyfi frá sjóðnum, enda hafi viðkomandi launagreiðandi samþykkt aðildina og þær skuldbindingar sem henni fylgja.
Deildir
Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eru auk þessa deildarskiptir og eru lífeyriskjörin mismunandi eftir deildum sem og ávinnsla lífeyrisréttinda. Starfsfólk sem hóf störf hjá opinberum aðila eftir 1.júlí 1998 greiðir flest í A – deild LSS eða Brúar. Sú deild er með aldurstengdri ávinnslu réttinda utan þá sem greiddu í deildina fyrir 1.júní 2017 sem eru með jafna ávinnslu réttinda óháð aldri. V – deildin byggir á aldursháðum greiðslum sem hentar vel ungu fólki sem er að hefja starfsævina. B-deildir þessara sjóða eru loks að fullu tryggðar af vinnuveitanda en hafa verið lokaðar nýjum félögum frá árinu 1998.
Sérstök réttindi
Loks gilda sérstakar reglur varðandi þá sem voru við störf hjá ríki eða sveitarfélögum fyrir 1.júní 2017. Á þessum tíma tók svo kallað lífeyrissamkomulag gildi, en þá féll á brott ábyrgð opinberra launagreiðenda á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga í opinberu sjóðunum. Opinberu launagreiðendurnir lögðu í kjölfarið sjóðunum til fé í þrjá sjóði, jöfnunarsjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð til þess að tryggja áfallna stöðu sjóðanna miðað við árið 2017. Viðkomandi starfsfólk á því, auk hluta launagreiðanda (11,5%), rétt á lífeyrisauka. Lífeyrisaukinn er reiknaður fyrir hvert ár og er sem dæmi 6,5% hjá Brú lífeyrissjóði fyrir árið 2026. Þannig verður heildarmótframlag launagreiðanda í því tilfelli alls 18%.
Ef ráðningarsambandi starfsmanns við opinberan launagreiðanda er slitið í eitt ár eða lengur glatast rétturinn til lífeyrisaukans eftir það nema að um það sé samið sérstaklega í nýjum ráðningarsamningi.
Viðbótarlífeyrissparnaður
Launamenn og sjálfstætt starfandi er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað. Mótframlag launagreiðanda er samkvæmt flestum kjarasamningum 2% af heildarlaunum sem er þá mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað launamanns, enda sé framlag hans a.m.k. 2%. Starfsmaður getur valið sér hvort hann geymir viðbótarlífeyrissparnað hjá lífeyrissjóðum, bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum eða líftryggingafélögum. Á vefnum lífeyrismál má finna gott yfirlit yfir þennan þátt.
Iðgjöld til lífeyrissjóða
Aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Iðgjöld eru alls 12% að lágmarki. Taflan hér fyrir neðan sýnir hvernig lífeyrisgreiðslur skiptast eftir deildum í LSS.
| Iðgjöld | LSR A-deild | LSR B-deild | LSS A-deild | LSS V-deild | Almennir lífeyrissjóðir |
|---|---|---|---|---|---|
| Sjóðsfélaga | 4% af heildarlaunum | 4% af heildarlaunum | 4% af heildarlaunum | 4% af heildarlaunum | 4% af heildarlaunum |
| Launagreiðanda | 11,5% heildarlaunum | 8% af heildarlaunum | 11,5% heildarlaunum | 11,5% heildarlaunum | 11,5% heildarlaunum |
| Alls | 15,5% af heildarlaunum | 12% af heildarlaunum | 15,5% af heildarlaunum | 15,5% af heildarlaunum | 15,5% af heildarlaunum |