Siðareglur náttúrufræðinga

 Hér fyrir neðan er að finna siðareglur náttúrufræðinga.

Tilgangur þessara siðareglna er að efla fagmennsku náttúrufræðinga og styrkja fagvitund þeirra.  Siðareglur eru settar til að stuðla að friðsamlegum samskiptum.  Þessar siðareglur eru náttúrufræðingum til leiðbeiningar í starfi. 

Náttúrufræðingar skulu ástunda persónuleg og fagleg heilindi í starfi sínu.  Með persónulegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við góða almenna siðferðisvitund.  Með faglegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við siðareglur félagsins.

  1. Náttúrufræðingar skulu sýna náttúrunni nærgætni og virðingu og gera ekkert sem veldur óþarfri, óskynsamlegri eða hættulegri röskun á henni.
  2. Náttúrufræðingar skulu ætíð beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður og viðhafa fagleg vinnubrögð sem byggja á vísindum.
  3. Náttúrufræðingar skulu axla ábyrgð og virða þau takmörk sem fylgja menntun þeirra og starfi. Náttúrufræðingar skulu einungis gefa faglega ráðgjöf um þau efni sem þeir hafa þekkingu og þjálfun til að fjalla um.
  4. Náttúrufræðingar skulu leitast við að viðhalda þekkingu sinni, færni og hæfni. Þeir beri faglega ábyrgð á störfum sínum og virði lög og reglur. Störf þeirra skulu ávallt byggjast á bestu þekkingu á hverjum tíma, og þeir andmæli röngum eða villandi staðhæfingum um viðfangsefni sín.
  5. Náttúrufræðingar skulu ekki fara í manngreinarálit og sýna öðrum virðingu og heiðarleika.
  6. Náttúrufræðingar skulu stuðla að góðum starfsanda á vinnustað.
  7. Náttúrufræðingar skulu eiga faglegt samstarf við aðrar stéttir og vera virkir þátttakendur í teymisvinnu þegar það á við.
  8. Náttúrufræðingar skulu virða vísindastörf annarra og geta heimilda á fullnægjandi hátt. 
  9. Náttúrufræðingar skulu í störfum sínum fylgja þeim siðareglum sem þar gilda.
  10. Náttúrufræðingar skulu nota faglega dómgreind í allri umfjöllun og sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
  11. Náttúrufræðingar skulu ávallt gera skýran greinarmun á staðreyndum, skoðunum og tilgátum í faglegum málflutningi.
  12. Náttúrufræðingar skulu upplýsa um möguleg hagsmunatengsl sé um slíkt að ræða.

Meint brot eru kærð skriflega til siðanefndar FÍN.

Siðanefnd FÍN setur sér starfsreglur um meðferð á kærum og skulu þær staðfestar af stjórn félagsins.

Starfsreglur siðanefndar FÍN skulu birtar á vef félagsins.

Endurskoðun siðareglna þessara er á ábyrgð siðanefndar FÍN og skal þeim komið á framfæri til nýrra félaga.

Siðareglur þessar voru samþykktar á aðalfundi Félags íslenskra náttúrufræðinga þann 15. febrúar 2011.