9 júl. 2019

Frestun kjarasamningsviðræðna fram í ágúst

Kjaraviðræðum FÍN við samninganefnd ríkisins (SNR), samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Reykjavíkurborg hefur verið frestað fram í ágúst með undirritun viðræðuáætlunar við viðsemjendur ásamt ákvæðum um eingreiðslu til handa þeim félagsmönnum sem uppfylla tiltekin skilyrði um slíka eingreiðslu.

Kjarasamningsviðræður við ríkið

Kjarasamningur FÍN við ríkið losnaði 1. apríl sl. Í lok júní lagði samninganefnd ríkisins til að gert yrði hlé á kjaraviðræðum í júlí og að gengið yrði frá viðræðuáætlun með tilliti til þess og undirritaði FÍN slíka viðræðuáætlun ásamt öðrum aðildarfélögum BHM. Samhliða frestun á viðræðum þá bauð SNR eingreiðslu vegna þeirra tafa sem hafa orðið á viðræðum og mun ríkið greiða félagsmönnum FÍN eingreiðslu að upphæð kr. 105.000 þann 1. ágúst nk. að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eingreiðslan greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan er hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga sem þýðir að hún mun koma til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum frá 1. apríl. Með greiðslunni eru hins vegar ekki lagðar línur um væntanlegar launahækkanir í samningunum en sem kunnugt er hafa BHM-félögin hafnað flötum krónutöluhækkunum. Stefnt er að því að ná samningum við ríkið eigi síðar en 15. september nk.

Kjaraviðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga

Kjarasamningur FÍN við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út í lok mars og hefur félagið átt í viðræðum við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS). Undirrituð var endurskoðuð viðræðuáætlun milli aðila og viðræðum frestað fram í ágúst. Samhliða frestun á viðræðum var samið um tvær eingreiðslur til félagsmanna FÍN: kr. 100.000 til útgreiðslu 1. ágúst nk. og kr. 80.000 til útgreiðslu 1. nóvember nk. Stefnt er að því að ljúka samningum fyrir 15. nóvember 2019. Upphæðirnar greiðast hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Greiðslurnar frá SNS eru hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga og koma því til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum. Sérstaklega er kveðið á um það að félagsmenn í fæðingarorlofi fái þessar eingreiðslur greiddar.

Kjaraviðræður við Reykjavíkurborg

Kjarasamningur FÍN og Reykjavíkurborgar rann út í lok mars sl. og hefur félagið átt í viðræðum við samninganefnd Reykjavíkurborgar. Gengið var frá undirritun á endurskoðaðri viðræðuáætlun við Reykjavíkurborg sem felur í sér að viðræðum er frestað fram í ágúst. Stefnt er að því að ljúka samningum við Reykjavíkurborg eigi síðar en 15. september nk. Reykjavíkurborg mun jafnframt greiða félagsmönnum FÍN eingreiðslu að upphæð kr. 105.000 þann 1. ágúst nk. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019. Greiðslurnar frá Reykjavíkurborg eru hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga og koma því til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum.