23 feb. 2018

Staða innleiðingar starfsmats fyrir háskólamenntaða starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra.

Innleiðingarferli starfsmats fyrir háskólamenntaða starfsmenn sveitarfélaga verður ekki að fullu lokið fyrir 1. júní 2018.  Engu að síður mun starfsmatsniðurstaða gilda frá þeim tíma.

Í kjarasamningum við háskólamenntaða starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra frá árinu 2016 var samið um upptöku starfsmatskerfisins SAMSTARF sem koma átti til framkvæmda í þremur skrefum. Samkvæmt kjarasamningi átti innleiðingarferlinu að vera lokið fyrir 1. júní 2018.

Með kjarasamningum aðildarfélaga BHM fylgdi aðgerðaráætlun, fylgiskjal 4, sem lýsir innleiðingarferlinu.

Fyrsta skref innleiðingar starfsmatsins, bráðabirgðaröðun starfa, gekk  vel fyrir sig.

Annað skref innleiðingarinnar, mat á störfum samkvæmt starfsmati, hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir í kjarasamningum. Ástæður þess eru m.a. þær að gengið hefur hægar en reiknað var með að safna starfslýsingum frá sveitarfélögum og spurningalistum frá starfsmönnum. Samræming á tíma þeirra sem þurfa að sitja starfsmatsviðtöl hverju sinni getur einnig reynst flókin en í hverju viðtali taka fjórir aðilar þátt, starfsmaður, starfsmatsráðgjafi frá Verkefnastofu, næsti yfirmaður starfsmanns og fulltrúi viðkomandi stéttarfélags.

Þriðja skref innleiðingar er samkvæmt kjarasamningi, niðurfelling bráðabirgðaröðunar og upptaka starfsmats frá og með 1. júní 2018.

Til að auðvelda umfang og úrtaksvinnu var innleiðingarferlinu hjá aðildarfélögum BHM skipt í þrjá áfanga samkvæmt aðgerðaráætlun.

Í 1. áfanga voru allir stjórnendur sveitarfélaga og stofnana þeirra (63 starfsmatsviðtöl hafa verið tekin).

Í 2. áfanga var valið úrtak millistjórnenda og verkefnastjóra (73 starfsmatsviðtöl hafa verið tekin).

Í 3. áfanga er valið úrtak sérfræðinga (42 starfsmatsviðtöl hafa verið tekin).

Veittur var lokafrestur til 20. desember 2017 til að skila inn gögnum fyrir 1. og 2. áfanga innleiðingar. Starfsmatsviðtölum vegna þessara áfanga er nú að mestu lokið og er vinna að hefjast hjá Verkefnastofu  við að meta störf í samræmi við verklagsreglur starfsmatskerfisins.

Kallað var eftir starfslýsingum og spurningalistum vegna 3. áfanga í byrjun september á síðasta ári og veittur var frestur til 13. október 2017. Beiðni um gögn hefur verið ítrekuð til þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa skilað þeim til Verkefnastofu, nú síðast í byrjun febrúar 2018. Enn vantar gögn fyrir 35 störf. 41 starf bíða starfsmatsviðtala og 42 viðtölum er þegar lokið sem er um þriðjungur þeirra starfa sem lentu í úrtaki í 3. áfanga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur óskað eftir því að starfsmatsviðtölum við þeirra félagsmenn verði sleppt og störf verði eingöngu metin samkvæmt starfslýsingum og niðurstöðum svara úr spurningalistum.

Verk- tækni- og byggingarfræðingar hafa samþykkt að fresta undirbúningsvinnu og innleiðingu starfsmats fyrir Verkfræðingafélag Íslands og Stéttarfélags byggingafræðinga.

Í ljósi ofangreindra upplýsinga liggur það fyrir að innleiðingarferli starfsmats fyrir háskólamenntaða starfsmenn sveitarfélaga verður ekki að fullu lokið fyrir 1. júní 2018.  Engu að síður mun starfsmatsniðurstaða gilda frá þeim tíma.