8 mar. 2013

Ályktun félagsfundar FÍN á Landspítala

Á félagsfundi Félags íslenskra náttúrufræðinga þann 19. febrúar sl. var samþykkt ályktun þar sem meðal annars var krafist þess að stjórnendur spítalans komi þegar til viðræðna um nýjan stofnanasamning með þeim ásetningi að tryggja spítalanum öflugt starfsfólk, þannig að fagmennska og framþróun verði áfram raunhæf leiðarljós í rekstri hans.

Ályktun félagsfundar Félags íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala þann 19. febrúar 2013

Fundur náttúrufræðinga á Landspítala krefst að laun náttúrfræðinga verði hækkuð, þannig að þau verði sambærileg við laun annarra náttúrufræðinga hjá ríkinu.

Fundurinn mótmælir metnaðarleysi stjórnvalda sem lýsir sér í því að á eina háskólasjúkrahúsi landsins séu laun náttúrufræðinga mun lægri en á flestum ríkisstofnunum.

Fundurinn bendir á að tæp 80% náttúrufræðinga á Landspítala eru konur. Það jafnlaunaátak sem ríkisstjórnin hefur boðað á því fyllilega við um þennan hóp.

Fundurinn krefst þess að stjórnendur spítalans komi þegar til viðræðna við Félag íslenskra náttúrufræðinga um nýjan stofnanasamning með þeim ásetningi að tryggja spítalanum öflugt starfsfólk, þannig að fagmennska og framþróun verði áfram raunhæf leiðarljós í rekstri hans.