19 feb. 2018

Ríkisstofnanir og sveitarfélög hvött til að bjóða atvinnulausum með háskólamenntun sumarstörf 2018.

Starfsþjálfunarstyrkur frá Vinnumálstofnun með hverjum háskólamenntuðum atvinnuleitanda sem ráðinn verður í sumarstarf.

Atvinnuleysi háskólamenntaðra er vaxandi vandamál á Íslandi.  Í dag er at­vinnu­laust fólk með há­skóla­mennt­un yfir 1.100 tals­ins, sem er um fjórðung­ur af þeim sem eru á skrá hjá Vinnu­mála­stofn­un. Af þeim rúmlega 1.100 með háskólamenntun sem voru á atvinnuleysiskrá í janúar sl. voru 150 viðskiptafræðingar, 54 lögfræðingar, 33 kennarar, 18 verk- og tæknifræðingar, 13 með félagsfræðimenntun og 876 með aðra háskólamenntun. 

Vinnumálastofnun hefur vegna þessa gripið til þess ráðs að hvetja forstöðumanna ríkisstofnana og framkvæmdastjóra sveitarfélaga til að bjóða atvinnuleitendum með háskólamenntun sumarstörf á nk. sumri. Þessum aðilum býðst að fá svokallaðan starfsþjálfunarstyrk frá Vinnumálstofnun með hverjum háskólamenntuðum atvinnuleitanda sem ráðinn verður í sumarstarf. Skilyrðið er að viðkomandi hafi verið þrjá mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá. Styrkfjárhæðin getur numið annaðhvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði en fullar bætur nema nú rúmum 227 þúsund krónum.

BHM hefur gegnum árin lýst áhyggjum af stöðu þessa hóps og hvatt stjórnvöld til að móta langtímastefnu í efnahags- og atvinnumálum í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Á næstunni mun BHM funda með fulltrúum Vinnumálastofnunar til að greina stöðuna og fara yfir þau úrræði sem stofnunin býður háskólamenntuðum atvinnuleitendum. 

Hér er hægt að nálgast tölulegar upplýsingar er varðar atvinnuleysi í janúar 2018.