22 maí 2017

Ályktanir aðalfundar BHM 2017

Á aðalfundi Bandalags háskólamanna, sem haldinn var 18. maí, voru samþykktar eftirfarandi níu ályktanir um bætt kjör opinberra starfsmanna, jöfnun launamunar milli vinnumarkaða, kynbundinn launamun, lífeyrismál, menntunarákvæði gerðardóms frá 14. ágúst 2015, fjárframlög til menntamála, bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð, Lánasjóð íslenskra námsmanna og húsnæðismál BHM.

Bætt kjör opinberra starfsmanna

BHM leggur áherslu á að fjárfesting einstaklinga í háskólamenntun, skili sér í launum og kjörum: að menntun sé metin til launa.

Nýtt samræmt lífeyriskerfi á almennum og opinberum vinnumarkaði hefur í för með sér grundvallarbreytingar á stöðu opinberra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Upptaka aldurstengdrar réttindaávinnslu í A-deildum LSR og Brúar lífeyrissjóðs veldur því að opinberir starfsmenn munu ávinna sér lakari lífeyrisréttindi. Sú staðreynd þarf að endurspeglast í launum þeirra. Kerfisbreytingin hefur einnig þær afleiðingar að þau sem takast á hendur langskólanám eru ekki á vinnumarkaði á þeim árum þegar réttindaávinnslan er mest í nýju lífeyriskerfi. Taka þarf tillit til þessa í launasetningu nýrra háskólamenntaðra opinberra starfsmanna í breyttu lífeyriskerfi. Munurinn á núverandi kerfi og nýju lífeyriskerfi má ekki koma niður á komandi kynslóðum og verður að bæta að fullu í launum.

Skylduaðild að lífeyrissjóðum samræmist ekki markmiðum nýs lífeyriskerfis um hreyfanleika launafólks á vinnumarkaði. Tryggja þarf að sjóðfélagar geti án vandkvæða farið milli vinnuveitanda án þess að það hafi áhrif á aðild þeirra að A-deild LSR,  ávinnslu réttinda eða lífeyrisauka.

Jöfnun launamunar á milli markaða

Það er krafa BHM að stjórnvöld standi við fyrirheit sem sett voru í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga við bandalög opinberra starfsmanna, að laun hjá hinu opinbera verði hækkuð til jafns við það sem gildir á almennum vinnumarkaði, sbr. 7. gr. samkomulags um nýskipan lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna frá 19. september 2016. Kjör háskólamanna á almennum og opinberum vinnumarkaði verður að jafna. Fyrstu skrefin þarf að taka í komandi kjarasamningum, þ.e. að leiðrétta laun þeirra starfsmanna sem nú eru verst settir innan stofnana ríkisins. Það er grundvallarforsenda þess að hæft fólk fáist til starfa hjá ríki og sveitarfélögum og að grunnþjónusta sé tryggð.

Kynbundinn launamunur er mannréttindabrot

Launamunur kynja meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM veldur bandalaginu áhyggjum. BHM gerir þá kröfu að opinber gögn séu kyngreind og kerfisbundinn launamunur verði greindur svo  hægt sé með samfelldum og skilvirkum hætti að fylgjast með, bera saman stöðu kynjanna og bregðast við ef mælingar sýna mismunun. BHM krefst þess að verðmat starfa sé ekki kynbundið og að kynbundnum launamun verði eytt.

Samningar skulu standa

Haustið 2016 gerði BHM ásamt BSRB og KÍ samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýskipan lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna. Nýtt og samræmt lífeyriskerfi tekur gildi 1. júní 2017, þar sem ávinnsla réttinda verður aldurstengd og lífeyristökualdur hækkar í 67 ár. BHM gagnrýnir harðlega að lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2016, víki í veigamiklum atriðum frá þessu samkomulagi. Lögin tryggja ekki óskert réttindi allra þeirra sem eru sjóðfélagar í A-deild sjóðsins þegar lögin taka gildi líkt og kveðið er á um í samkomulaginu. Þessar málalyktir hafa ekki aukið traust í samskiptum aðildarfélaga BHM við ríkið sem vinnuveitanda. Bandalagið kannar grundvöll málsóknar vegna lykta lífeyrissjóðsmálsins.

Menntunarákvæði gerðardóms

Sumarið 2015 voru lögmætar verkfallsaðgerðir 18 aðildarfélaga BHM stöðvaðar með lagasetningu á Alþingi og gerðardómi falið að úrskurða um laun félagsmanna. Aðildarfélög BHM undirbúa nú kröfugerð vegna komandi kjarasamninga við ríkið. Gerðardómur steig mikilvægt skref í úrskurði sínum með því að viðurkenna kröfu BHM um að háskólamenntun skuli metin til launa með sérstöku menntunarákvæði sem gilti frá 1. júní 2016. Menntunarákvæðið hefur enn ekki verið framkvæmt gagnvart meirihluta félagsmanna aðildarfélaganna átján. BHM lýsir furðu sinni á stöðu þessa máls og afstöðu ríkisins til ákvæðis gerðardóms og krefst þess að stofnanir ríkisins gangi án tafar til samninga við aðildarfélögin um útfærslu menntunarákvæða gerðardóms.

Fjárframlög til menntamála

Til að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar þarf að bæta aðgengi að fjölbreyttri menntun á framhalds- og háskólastigi í hæsta gæðaflokki. Framlag hins opinbera á hvern háskólanema á Íslandi er helmingi minna en á Norðurlöndunum. BHM tekur undir og styður málflutning rektora háskólanna hér á landi og skorar á ríkisstjórnina að láta af fjársvelti háskólastigsins. BHM kallar eftir samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulífið um greiningu á framtíðarþörfum á vinnumarkaði og áhrif tækniframfara á vinnumarkaðinn og störf háskólafólks. Þörf er aukinna rannsókna á þessu sviði hér á landi.

Bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð

BHM styður viðleitni til að bæta og formgera vinnubrögð við kjarasamningagerð. Forsenda þess að hægt sé að byggja upp traust og trúnað í samskiptum aðila vinnumarkaðarins er að samstaða og sameiginlegur skilningur ríki um þau úrlausnarefni sem aðilarnir standa frammi fyrir og tryggt sé að jafnræði ríki í samskiptum. BHM telur það lykilatriði að komið verði  á formlegu samstarfi milli hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins um vinnslu á samræmdum launaupplýsingum og upplýsingaöflun um launaþróun, en ekki er eftir neinu að bíða.

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Aðalfundur BHM beinir því til stjórnvalda að málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði endurskoðuð og fullt samráð haft við bandalagið í því ferli. Bandalagið styður blandað kerfi styrkja og lána svo fremi sem slík breyting tryggi jafnrétti til náms og námsvals.  BHM leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Húsnæðismál BHM

Á starfsárinu 2017-2018 er brýnt að huga að húsnæðismálum BHM til framtíðar og meta kosti þess og galla að starfsemin verði áfram í Borgartúni 6 eða að hún verði flutt annað.