11 jan. 2017

Helstu breytingar á reglum Sjúkrasjóðs BHM 1. janúar 2017

Kæru  sjóðfélagar í Sjúkrasjóði BHM

Á fulltrúaráðsfundi Sjúkrasjóðs BHM þann 20. desember sl. voru kynntar breytingar á reglum Sjúkrasjóðs BHM sem tóku gildi þann 1. janúar 2017 og fylgja þær hér með í viðhengi og er einnig aðgengilegar á vefsvæði sjóðsins.

Á fundinum var fjallað um úttekt tryggingastærðfræðings á Sjúkrasjóði BHM. Í úttektinni er sjóðstjórn bent á að draga þurfi úr styrkjum og safna í sjóði. Jafnframt var tekið fram að ekki verði séð að bráður vandi steðji að sjóðnum.

Samkvæmt úttekt tryggingarstærðfræðingsins er miðað við að sjóðurinn sé í jafnvægi og undir það búinn að bregðast við sveiflum í útgreiðslum þegar útgreiddir styrkir nema um 58% af iðgjöldum sjóðsins. Síðustu þrjú ár hefur þetta hlutfall verið á bilinu 67%-73% af iðgjöldum. Stjórn sjóðsins hefur á undanförnum árum haldið styrkfjárhæðum því sem næst óbreyttum og bundið vonir við að fjölgun sjóðfélaga myndi lækka þetta hlutfall. Það hefur ekki reynst nægjanleg ráðstöfun. Árið 2016 námu styrkgreiðslur 67% af iðgjöldum sjóðsins. Mestu munaði um aukna sjúkradagpeninga en styrkir vegna þeirra hækkuðu um 75% á milli ára. Árið 2015 greiddi sjóðurinn um 40 milljónir í sjúkradagpeninga en sjóðurinn greiddi um 70 milljónir á síðasta ári.

Þessi aukning á greiðslu sjúkradagpeninga er meiri en sjóðurinn ræður við að öllu óbreyttu og er stjórn sjóðsins því nauðugur einn kostur að bregðast við og skerða styrki. Við ákvörðun um skerðingu styrkja var horft til skipulagsskrár sjóðsins sem kveður á um að sjóðnum skuli varið í sjúkradagpeninga, styrki vegna andláts sjóðfélaga og styrki vegna forvarna og ýmiss konar heilbrigðisþjónustu. Nýjar úthlutunarreglur sjóðsins tóku gildi 1. janúar 2017 og fela meðal annars í sér eftirfarandi breytingar:

a) Hámarksfjárhæð sjúkradagpeninga hækkaði úr 615.000 kr. í 665.000 kr. og greiðast áfram í allt að 12 mánuði.

b) Nýtt ákvæði í i-lið 4. gr. um heimild stjórnar sjóðsins að beina umsækjanda til trúnaðarlæknis sjóðsins. Jafnframt er stefnt að því að taka inn sjúkradagpeningavottorð á árinu í stað almenns læknisvottorðs. Útlagður kostnaður vegna öflunar vottorða verður greiddur gegn framvísun kvittunar.

c) Styrkir voru færðir til og sameinaðir. Til dæmis voru styrkir vegna meðferðar á líkama og sál og endurhæfingar á heilsustofnun sameinaðir undir eina grein.

d) Nokkrir styrkir lækkuðu um 5.000 kr. Á það við um styrki í 5., 6., 7., 9., 10. og 11. gr. reglnanna.

e) Hámarksstyrkur verður almennt háður hlutfalli af útlögðum kostnaði. Á það við um styrki í 5. og 9. gr. þar sem styrkur nemur að hámarki 80% af útlögðum kostnaði.

f) Þá eru styrkir ekki lengur miðaðir við almanaksár heldur er miðað við hámarksstyrk á ákveðnu x mánaða tímabili sem getur verið mismunandi eftir styrkjum. Þessi breyting nær t.d. til styrkja í 7., 9., 10. og 11. gr.

Það að miða styrki ekki lengur við almanaksár heldur hámarksstyrk á ákveðnu tímabili felur ekki í sér lækkun á styrkjum heldur betri þjónustu við félagsmenn og jafnari útgreiðslur styrkja yfir árið. Með væntanlegri uppfærslu á tölvukerfi sjóðsins verður félagsmönnum gert kleift að sjá á „Mínum síðum“ í rauntíma hversu mikinn styrk viðkomandi getur sótt hverju sinni.

Stjórn Sjúkrasjóðs BHM bindur vonir við að þessar hóflegu lækkanir séu nægjanlegar til að bregðast við stöðu sjóðsins. Við vonum jafnframt að sjóðfélagar sýni þessum óhjákvæmilegu aðgerðum skilning.

Að lokum þá óskar stjórn og starfsmenn sjóðsins sjóðfélögum velfarnaðar og gæfuríks árs og þakkar fyrir samskiptin á liðnu ári.

Kveðja,

Stjórn Sjúkrasjóðs BHM