10 okt. 2016

Breytingar á úthlutunarreglum Starfsþróunarseturs háskólamanna.

Stjórn Starfsþróunarseturs háskólamanna hefur gert breytingar á úthlutunarreglum Starfsþróunarseturs háskólamanna.

Stjórn Starfsþróunarseturs háskólamanna hefur gert breytingar á úthlutunarreglum Starfsþróunarseturs háskólamanna. Sjá nánar hér í fréttinni.

Stjórn Starfsþróunarseturs háskólamanna hefur gert eftirfarandi breytingar á úthlutunarreglum Starfsþróunarseturs háskólamanna:

Lágmarksiðgjöld

·         Mánaðarlegt iðgjald 2100 kr. eða hærra á mánuði veitir rétt á fullum styrk (370.000 kr.)

·         Mánaðarlegt iðgjald á bilinu 1.050 kr. - 2.099 kr. veitir rétt á hálfum styrk (185.000 kr.)

·         Iðgjald undir 1050 kr. veitir ekki rétt til styrks.

Áður gilti: Styrkur er veittur í samræmi við starfshlutfall þannig að einstaklingur í 50% starfi eða minna hefur rétt til 50% styrks en starfshlutfall yfir 50% veitir rétt til fullrar greiðslu. 

Styrkir í fæðingarorlofi, við atvinnumissi og í langtímaveikindum

·         Fæðingarorlof: Aðildarrof í fæðingarorlofi skerðir ekki möguleika á styrk enda sé stéttarfélagsgjald greitt á orlofstímabili.

Áður gilti: Starfsmenn í fæðingarorlofi geta fengið styrk ef iðgjöld eru greidd til setursins.

·         Atvinnumissir -Við atvinnumissi halda félagsmenn réttindum í allt að 12 mánuði.

Aðildarfélögum er heimilt að framlengja þetta tímabil upp í 3 ár gegn því að greiða 0,7% iðgjald til STH af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnuleysis félagsmanna sinna.

Áður gilti: Við atvinnumissi er hægt að greiða iðgjöld í allt að ár til að viðhalda réttindum hjá Starfsþróunarsetri háskólamanna.

·         Veikindi og endurhæfingarlífeyrir: Félagsmenn halda réttindum sínum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM. Þeir sem þiggja endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun halda réttindum í allt að 12 mánuði. Aðildarfélögum er heimilt að framlengja þetta tímabil upp í 3 ár gegn því að greiða 0,7% iðgjald til STH frá upphafi töku endurhæfingarlífeyris félagsmanna sinna

Áður gilti: Þeir sem hafa greitt til Starfsþróunarseturs halda réttindum sínum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkrasjóði eða Styrktarsjóði BHM. Eins er farið með mál sjóðfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. En til að viðhalda réttindum þurfa iðgjöld að vera greidd fyrir viðkomandi hjá setrinu.

Styrkhæfi verkefna

·         Nám á háskólastigi eða viðurkennt/gæðavottað nám

·         Tungumála- og upplýsingatækninám/-námskeið eru styrkt

·         Rökstyðja þarf staðarval náms/námskeiðs erlendis

Styrkir eru veittir vegna eftirtalinna kostnaðarþátta:

A. Skólagjald

B. Námskeiðsgjald

C. Ráðstefnugjald

D. Ferðakostnaður sem hlýst af A-C  (flug, lestarferðir og gistikostnaður. Ekki eru greiddar ferðir innanbæjar, bensín eða leiga á bílaleigubílum.)

Styrkhæfi verkefna eru óháð því hvort um starfsþróun eða starfsferilsþróun sé að ræða.

Starfsþróunaráætlun snýr að starfsþróun í núverandi starfi. Áætlunin byggir á sameiginlegri niðurstöðu starfsmanns og yfirmanns  með þarfir starfsmanns og stofnunarinnar í huga. Markmiðið er  að auka árangur starfsmanns og  stofnunar og er starfsþróunaráætlun samþykkt af yfirmanni.Við gerð starfsþróunaráætlunar þarf að byggja á starfslýsingu og starfsmannasamtali. Mikilvægt er að greina þarfir stofnunar, deildar og starfsmanns með starfslýsingu að leiðarljósi. Hæfnisþættir starfsmanns eru metnir og þurfa færnisstigin að vera mælanleg en ekki huglæg. Hæfnisþætti er hægt að flokka eftir þörfum stofnunar.

Starfsferilsáætlun snýr að starfsþróun einstaklings óháð núverandi starfi.

Áður gilti: Falli verkefni að starfsþróunaráætlun umsækjanda (samþykkt af yfirmanni) er styrkveiting óháð starfshlutfalli umsækjanda. Sé slík staðfesting ekki fyrir hendi er réttur til umsóknar almennt háður því að verkefni teljist vera á háskólastigi (starfsferilsþróun).

 

Með kveðju,

Anna Sigurborg Ólafsdóttir

Forstöðumaður Starfsþróunarsetur háskólamanna

annas@bhm.is

Sími: 595-5121