21 sep. 2016

Nýtt lífeyriskerfi opinberra starfsmanna - Afstaða stjórnar FÍN

Upplýsingar til félagsmanna FÍN varðandi samkomulag um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna

Upplýsingar til félagsmanna FÍN varðandi samkomulag um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

Stjórn Félags íslenskra náttúrufræðinga tók afstöðu til samkomulags um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og fól formanni FÍN að samþykkja ekki umrætt samkomulag á formannaráðsfundi BHM þann 9. september sl. og lét bóka í fundargerð formannaráðs BHM bókun þess efnis, sjá hér.

Stjórn Félags íslenskra náttúrufræðinga tók afstöðu til samkomulags um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og fól formanni FÍN að samþykkja ekki umrætt samkomulag á formannaráðsfundi BHM þann 9. september sl. og lét bóka í fundargerð formannaráðs BHM bókun þess efnis, sjá hér.

Í tölvupósti sem félagið sendi til félagsmanna sinna sem starfa á opinberum markaði þann 2. september sl. segir:

Ákveðið var á formannaráðsfundi BHM 29. ágúst sl. að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, mundi kynna stöðu viðræðna BHM, BSRB og KÍ við fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Eftirfarandi pistill frá formanni BHM varpar ljósi á stöðuna, sjápistil formanns BHM.

Meðfylgjandi er einnig afstaða stjórnar FÍN, til framlagðra tillagna ríkis og sveitarfélaga, sem send var formannaráði BHM 25. ágúst sl., safstöðu stjórnar FÍN.

Félagið mun halda félagsmönnum upplýstum eftir því sem málinu framvindur.

Í tölvupósti sem formaður FÍN sendi til allra félagsmanna FÍN þann 19. september segir:

Kæru félagsmenn

Eins og ykkur er mögulega kunnugt um þá var undirritað samkomulag um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, sjá frétt á vef fjármálaráðuneytisins og á vef Bandalags háskólamanna.

Bandalag háskólamanna (BHM) undirritaði þetta samkomulag með heimild formannaráðs BHM frá 9. september sl.  Það var meirihluti þeirra sem mættu til fundarins samþykkur því að það yrði gert.  FÍN lagði fram bókun á þessum fundi og var eitt af þeim félögum sem hafnaði þessu samkomulagi, en bókun félagsins er hér í viðhengi og var einnig send fréttamanni RÚV í gær þar sem gengið var eftir afstöðu félagsins í þessu máli.

Samkomulagið er orðið að raunveruleika og því verður ekki breytt.  Staðan er því sú að næstu skref í þessu máli verður það að ráðherra mun leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um LSR.  Mikilvægt er að lögin séu í samræmi við umrætt samkomulag.  Félagið mun senda inn sína umsögn og gera athugasemdir við það sem betur má fara í því frumvarpi. 

Það er margt sem félagið getur sett út á, en við verðum að taka eitt fyrir í einu. 

Eitt mikilvægasta atriðið núna er að fylgjast vel með hvernig frumvarpið verður orðað vegna breytingar á lögum LSR og bregðast við því og gera athugasemdir. 

Það sem félagið telur mikilvægast á þessum tímapunkti er að sjóðfélagar sem eru núna í A-deild geti farið á milli vinnumarkaða án þess að eiga það á hættu að tapa þeim réttindum sem þeim er lofað í samkomulaginu.  Hvað á ég við hér?  Ég skal taka dæmi. 

1)      Ef ríkisstarfsmaður hættir störfum eftir áramótin, eftir að nýtt fyrirkomulag hefur tekið gildi, og fer að starfa á almennum markaði þá getur hann samið við sinn vinnuveitanda um að hann greiði hærra mótframlag.  Það er sem sé sama fyrirkomulag og er til staðar í dag.  Aftur á móti ef þessi sami einstaklingur fer síðan aftur að starfa hjá ríkinu, t.d. að tveimur árum liðnum, þá fer hann inn til ríkisins eins og hver annar nýr starfsmaður og getur ekki samið um hærra mótframlag hjá ríkinu eða fengið lífeyrisaukann sem getið er um í umræddu samkomulagi.  Hann á þá aðeins geymd réttindi í A-deild LSR.  Hann mun áfram greiða í LSR en mun ávinna sér lífeyrisréttindi eins og hver annar á almennum markaði.

2)      Ef starfsmaður á almennum markaði sem er í dag í A-deild, semur um hærra mótframlag við sinn vinnuveitanda eftir að lögin taka gildi og ákveður síðan að hefja störf hjá ríkinu þá mun hann ekki geta samið um hærra mótframlag við ríkið eins og hann gat á almennum markaði.  Hann mun þá eiga geymd réttindi í A-deild (gömlu) og ávinna sér réttindi eins og hver annar nýr starfsmaður mun gera sem ekki hefur átt aðild að A-deildinni í lok árs 2016.

Það er og verður krafa FÍN að til þess að fólk geti farið auðveldlega á milli vinnumarkaða þá verður fólk að geta a.m.k. samið um hækkað iðgjald við vinnuveitandann, hvort sem um er að ræða fyrirtæki á almennum markaði eða ríkisstofnun. 

Formaður BHM hefur sent okkur pistil sem gert er ráð fyrir að fari til félagsmanna FÍN og fylgir hann með hér í viðhengi, spistil formanns BHM.

Ég hvet félagsmenn FÍN til að kynna sér þessi mál gaumgæfilega.  Þetta er mikið hagsmunamál til framtíðar.

Ég ráðlegg félagsmönnum að lesa samkomulagið, kynna sér núverandi réttindi sín, lesa lögin um LSR sem eru í gildi í dag og fylgjast með þeim breytingum sem verða gerðar á þeim lögum, en frumvarp þess efnis verður lagt fram fljótlega.  Allir geta sent inn sínar umsagnir til nefndasviðs Alþingis þegar frumvarpið er afgreitt í nefnd.  Ég bendi líka á það að réttindi sjóðfélaga úr sjóðnum verða ekki lengur bundin í lög heldur munu ákvæði um réttindi úr sjóðnum, s.s. ellilífeyrir, makalífeyrir og barnalífeyrir byggjast á samþykktum sem stjórn LSR setur á hverjum tíma, það er í samræmi við það hvernig réttindi eru ákvörðuð úr lífeyrissjóðum á almennum markaði.

 Ef þú, félagsmaður góður, vilt senda okkur þínar hugleiðingar, þína skoðun eða athugasemd, þá endilega sendu hana á fin@bhm.is og við munum safna þessum athugasemdum saman.

Kveðja, Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN

Ítarefni:

Skýrsla vinnuhóps um endurskoðun lífeyrismála skv. 9. gr. stöðugleikasáttmálans (drög).